Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Nýttu sér veikindi Ólafs F. Magnússonar

18.07.2013 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins misnotuðu vald sitt þegar þeir gerðu Ólaf F. Magnússon að borgarstjóra segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ólafur hafi verið veikur maður.

Þetta kemur fram í viðtali við Þorbjörgu Helgu í Nýju lífi. Hún viðurkennir hún að borgarfulltrúar flokksins farið gegn eigin sannfæringu til að halda hópinn. Sem dæmi um það nefnir hún meirihlutasamtarf Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokksins.

Ég er enn miður mín og skammast mín fyrir að hafa tekið þátt í að gera Ólaf F. Magnússon að borgarstjóra í Reykjavík,“ segir Þorbjörg Helga í viðtalinu. Hún segir að á þeim tíma hafi Sjálfstæðismenn verið sárir eftir REI málið. Í því máli hafi sannfæringin verið tekin fram fyrir liðsheildina og þau hafi talið sig vinna þjóðþrifamál með því að stöðva yfirvald sem hafi ætlað að keyra það í gegn.

Hún segir að flokkssystkinum sínum hafi þótt afar ósanngjarnt að missa meirihlutann í kjölfarið. Ólafur F. var veikur maður og það vissu allir. Allir borgarfulltrúar misnotuðu aðstæður hans en við í Sjálfstæðisflokknum gengum skrefinu lengra en hinir með því að bjóða honum borgarstjórastólinn.

Hún segist ekki muna hver hafi átt hugmyndina að því að gera Ólaf að borgarstjóra. Sem kunnugt er var samstarfið kynnt á fréttamannafundi á Kjarvalsstöðum. Ég fékk mörg símtöl frá vinum sem horfðu á beina útsendingu frá Kjarvalsstöðum og sáu skelfingarsvipinn á mér. Ég stóð fyrir aftan Vilhjálm á blaðamannafundinum og gat ekki leynt því hvað mér leið ömurlega, segir Þorbjörg í viðtalinu.

Aðspurð um hvort að það hafi verið valdagræðgi að gera Ólaf að borgarstjóra, segir hún: „Allavega misnotkun á valdi, að mínu mati.“

Hún segir auðvelt að vera vitur eftir á, borgarfulltrúarnir hafi ekki getað gert sér fulla grein fyrir þessu strax, en um leið og þeir gerðu það hefðu þeir átt að ljúka samstarfinu, ekki síst Ólafs vegna og nefir hún ýmsa kosti hans, en segir svo: En á þessum tíma naut hann sín ekki sem slíkur vegna veikinda. Þeir Sjálfstæðismenn sem höfðu þekkt hann til lengri tíma hefðu átt að vita það.

Aðspurð hvort hún hefði ekki átt að lýsa þessari skoðun sinni fyrr, en ekki núna, þegar stutt er í kosningar, segir hún það rétt. Ekkert okkar er stolt af þessu og okkur er enn vantreyst eftir að hafa gert Ólaf F. Magnússon að borgarstjóra.

Ólafur F. Magnússon hafði þetta að segja þegar fréttastofan bar ummæli borgarfulltrúans undir hann: „Þetta viðtal við Þorbjörgu Helgu Vigúfsdóttur borgarfulltrúa er fyrir neðan allar hellur og raunar ekki svaravert. Ég lýsi skömm minni og vanþóknun á Þorbjörgu Helgu fyrir þetta."