Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nýtt tákn Grímseyjar of þungt

18.07.2016 - 19:50
Mynd: RÚV / RÚV
Erfiðlega hefur gengið að koma nýju tákni Grímseyjar fyrir á heimskautsbaugnum. Verkið vegur átta tonn en landhalli eyjunnar hefur torveldað flutninginn.

Færist með heimsskautsbaugnum

Í lok árs 2013 efndi Akureyrarbær í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands til samkeppni um nýtt kennileiti fyrir heimskautsbauginn í Grímsey. Kristinn E. Hrafnsson og Studio Granda sigruðu hugmyndasamkeppni með verkinu Hringur og Kúla.

Verkið, grásteinskúla sem er þrír metrar í þvermál er nú komin út í Grímsey og á hún að standa á heimsskautsbaugnum þar sem hann er á hverjum tíma en samkvæmt útreikningum þá færist hann að jafnaði til um nokkra metra á ári.

Hætta á að kúlan rúlli út í sjó

Erfiðlega hefur gengið að koma verkinu á sinn rétta stað. Kúlan, sem vegur átta tonn, fór á vörubílspalli með ferjunni út í Grímsey og átti að flytja hana á stall sem er 71 metra frá enda eyjarinnar í norðri. Vörubílinn komst hins vegar ekki lengra en rétt norður fyrir flugvöllinn þar sem hætta var á að kúlan ylti af pallinum og út í sjó vegna landhallans.

„Ef varnarliðið hefði verið hérna ennþá þá hefðum við fengið tveggja spaða þyrlu til þess að fara með þennan gjörning þarna út eftir en eins og staðan er núna held ég að það sé ekkert annað hægt að gera en að smíða undir hana vagn því hliðarhallinn er svo mikill. Það er ekkert auðvelt að framkvæma þetta,“ segir Sigurður Bjarnason, vinnuvélaeigandi í Grímsey.

Áætlað er að verkið verði vígt seinna í sumar en meðan lausn er ófundin á flutningsvandanum bíður kúlan þar sem hún situr. „Ef það þarf að fara að sérsmíða vagn undir kúluna þá er þetta náttúrulega orðinn brandari. En er listin ekki verðmætari og merkilegri eftir því sem hluturinn er dýrari og meira bras við hann?“

Snæfríður Ingadóttir
Atli Þór Ægisson
Fréttastofa RÚV