Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nýtt slitlag á Suðurlandsvegi ónýtt

21.08.2018 - 15:39
Mynd með færslu
Malbikun á Suðurlandsvegi. Mynd úr safni. Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Hluti slitlags sem lagt var á Suðurlandsveg um síðustu helgi er ónýtt þar sem mistök voru gerð við blöndun efna. Skemmdirnar eru á tveimur stöðum; annars vegar rétt austan við Vík á tveggja og hálfs kílómetra kafla og hins vegar vestan við Hellu við Landvegamót. Þar er slitlag á eins og hálfs kílómetra löngum kafla ónýtt.

Svanur Bjarnason, svæðisstjóri suðursvæðis hjá Vegagerðinni, segir að tjónið sé líklega fimmtán til tuttugu milljónir króna en óljóst sé á þessari stundu hver beri það tjón. 

„Það virðast hafa orðið mistök við afgreiðslu á bindiefni sem er notað í klæðninguna, það er að segja tjaran, þegar hún er afgreidd frá afhendingarstöð í Reykjavík þá á að blandast við hana svokölluð lífolía en það virðist eitthvað hafa bilað í afhendingarstöðinni þannig að það blandast ekki við og það uppgötvast ekki fyrr en búið er að leggja fyrir austan Vík,“ segir Svanur.

Vegurinn verður lagfærður við fyrsta tækifæri, að sögn Svans. Nokkuð steinkast er á veginum þegar ekið er eftir honum núna.

Fréttin hefur verið uppfærð. Tekið skal fram að Malbikunarstöðin Hlaðbær Colas, á engin tengsl við þetta mál, en myndefni sem sýndi einkennismerki fyrirtækisins birtist með sjónvarpsfrétt um málið. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður