Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nýtt sjúkrahótel bót fyrir fólk utan af landi

21.11.2017 - 16:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Með nýju sjúkrahóteli Landspítalans er ætlunin að bæta húsnæðismál fólks utan af landi. Þeirra sem þurfa að sækja þjónustu, til að mynda fæðingarþjónustu, sem ekki er að fá í heimabyggð. 

Aðstaða fyrir fólk af landsbyggðinni

Fólk sem býr við skerta fæðingarþjónustu á landsbyggðinni þarf jafnan að dvelja langdvölum í Reykjavík eða á Akureyri á meðan beðið er eftir barni. Flestir búa hjá ættingjum eða vinum en sumir verða sér úti um íbúðir hjá verkalýðsfélögum eða hjá Landspítalanum ef þær eru lausar. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri á flæðisviði Landspítalans, segir að með nýju sjúkrahóteli, sem á að hefja starfsemi á næstu mánuðum, batni staða þessa fólks enda sé það eitt að markmiðum sjúkrahótelsins: „Að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem er að sækja þjónustu sem er ekki veitt í heimabyggð. Svo að veita konum af landsbyggðinni gistingu nálægt fæðingardeild meðan beðið er fæðingar sérstaklega ef að er um áhættufæðingar að ræða.“ Guðlaug Rakel segir að til standi að vera með aðstöðu fyrir fjölskyldur á sjúkrahótelinu.

Mynd með færslu
 Mynd: LSH

Höfðu fá úrræði

Um helgina sagði fréttastofa RÚV frá hjónum á Ísafirði sem sáu fram á að greiða hátt í tvö hundrað þúsund krónur fyrir gistingu á sjúkrahóteli við Ármúla á meðan beðið er eftir fæðingu tvíburadætra. Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða gistinætur sjúklinga og þar með gjaldið fyrir verðandi móður en gististaðirnir sjálfir, hótelin, ákvarða hins vegar gjaldið fyrir aðstandendur. Mesti kostnaðurinn fyrir fjölskylduna hefði verið fyrir föður og 5 ára son þar sem fjölskyldan átti ekki í önnur hús að venda. Guðlaug segir að vilji sé til að gjald fyrir dvöl á sjúkrahóteli Landspítalans verði viðráðanlegt: „Að greiðslurnar séu ekki þannig að það verði íþyngjandi og hamli þannig notkun á hótelinu fyrir vissa einstaklinga. En þetta verður bara skoðað. Vissulega er gjaldskráin bara gefin út einu sinni á ári og er gefin út af Velferðarráðuneytinu.“