Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nýtt nám í sjávarbyggðafræði í óvissu

31.12.2017 - 09:07
Bærinn, bátar, bátur, eyrin, höfnin, Ísafjörður, Rúv myndir, skip, yfirlitsmynd
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Óvíst er hvort hægt er að fara af stað með nýja námsleið í sjávarbyggðafræði á meistarastigi í Háskólasetri Vestfjarða, þótt auglýst hafi verið eftir nemendum. Enn vantar 10 milljónir til að fjármagna námið.

Ný námsleið í sjávarbyggðarfræði

Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði hefur undirbúið nýja námsleið um nokkurt skeið. Peter Weiss, forstöðumaður Háskólasetursins, segir námsleiðina vinna með vestfirska sérstöðu, á Vestfjörðum er þriðjungur strandlengjunnar og mikil reynsla af byggðamálum. „Útkoman var að láta námsleiðina frekar heita sjávarbyggðafræði heldur en almenn byggðafræði til að tengja við það hér erum við að fást við strand- og hafsvæði.“ Til stendur að fara af stað með námsleiðina næsta haust.

Vantar 10 milljónir

Námsleiðin var meðal tillagna svokallaðrar Vestfjarðanefndar sem voru þó ekki fjármagnaðar. Námið verður þverfaglegt og á meistarastigi líkt og Haf- og strandsvæðastjórnun sem er kennd við Háskólasetrið nú. Nýja námsleiðin hefur hlotið fullgildingu frá Háskólanum á Akureyri og hafa 70 prósent hennar verið fjármögnuð til næstu þriggja ára en enn vantar 10 milljónir. Forsvarsmenn háskólasetursins hafa beðið afgreiðslu fjárlaga og endurnýjun samninga við Menntamálaráðuneytið en ítrekað hefur verið óskað eftir stuðningi ráðuneytisins.  

Auglýst til að missa ekki af nemendum

„Við erum í mikilli óvissu en við erum samt nokkuð brattir að þetta gangi upp og verði,“ segir Peter. Hann segir að ákveðið hafi verið að auglýsa eftir nemendum erlendis til að lenda ekki í þeirri stöðu að fá ekki nemendur eftir að fjármagn yrði tryggt - auglýst með fyrirvara um fjármögnun. Reiknað er með um 20-25 nemendum á brautinni og kemur hún til með að samtvinnast námi í haf- og strandsvæðastjórnun.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður