Í tónlisarmyndbandinu er Svala þakin gylltri grímu í framan en gríman er búin til úr teiknibólum. Gríman táknar skjöld sem ver listakonuna fyrir slæmri orku. „Við setjum öll upp grímu til að verja okkur fyrir slæmri orku. Þessi er með göddum og er því extra sterk. Ég og Begga vinkona min hjá Mask Academy fengum þessa hugmynd. Hver einasta teiknibóla var límd á andlitið og þetta tók fjórar klukkustundir“, segir Svala. Hún segist hafa borið grímuna í átta klukkustundir við upptökur á myndbandinu og gat lítið hreyft andlitið. „Það tók mig síðan þrjár klukkustundir að ná þessu af með sérstakri olíu. En þegar ég fær hugmyndir þá læt ég ekkert stoppa mig. Allt fyrir listina“, segir Svala.
Tónlistarmyndbandið var tekið upp á Íslandi og má meðal annars sjá Svölu dansa á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi í myndbandinu en Svala er einmitt alin upp á Nesinu. Svala segir að von sé á fullt af nýrri tónlist á árinu frá hljómsveit hennar Blissful. „Seinasta ár var geggjað og hefur gefið mér mörg tækifæri. Á þessu ári er von á fullt af nýrri tónlist og allskonar verkefni í gangi sem ég er mjög spennt að takast á við. Svo er ég líka bara svo þakklát að fá að vinna við það sem ég elska. Það er ekki sjálfsagt að geta unnið við að syngja og semja tónlist“, segir Svala.