
Nýtt met í hverjum kosningum
Fyrsti áskorandinn átti erfitt uppdráttar
Sigrún Þorsteinsdóttir hlaut 5,41 prósent atkvæða þegar hún bauð sig fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur árið 1988. Sigrún var fyrsti frambjóðandinn sem bauð sig fram gegn sitjandi forseta. Hún hafði ekki árangur sem erfiði heldur hlaut lökustu útkomu forsetaframbjóðanda frá upphafi.
Átta árum síðar voru fjórir í kjöri þegar Vigdís lét af embætti. Ástþór Magnússon hlaut fæst atkvæði, 2,68 prósent. Hann átti eftir að koma oftar við sögu. 2004 hlaut Ástþór 1,89 prósent atkvæða þegar hann var annar tveggja manna sem buðu sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni.
Fyrsti með innan við eitt prósent
Í forsetakosningunum 2012 gerðist það svo í fyrsta skipti að tveir frambjóðendur fengu færri atkvæði hlutfallslega en áður hafði gerst í kosningabaráttu. Andrea Ólafsdóttir fékk 1,80 prósent atkvæða. Hannes Bjarnason varð í sömu kosningum manna fyrstur til að fá innan við eitt prósent atkvæða þó naumt hafi það verið. Hann fékk 0,98 prósent atkvæða.
Í kosningunum á laugardag fengu svo fjórir frambjóðendur innan við eitt prósent atkvæða. Elísabet jökulsdóttir fékk 0,70 prósent atkvæða, Ástþór Magnússon 0,34 prósent, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,26 prósent og lestina rak Hildur Þórðardóttir með 0,16 prósent atkvæða. Öll fengu þau talsvert færri atkvæði en nam fjölda þeirra meðmælenda sem gerðu þeim kleift að fara í framboð.
Metfylgi Kristjáns stendur óhaggað
Þessu er öðruvísi farið með þá sem hafa fengið flest atkvæði í forsetakosningum í fyrstu atrennu. Ásgeir Ásgeirsson fékk 48,26 prósent atkvæða þegar hann var kosinn forseti 1952. Sextán árum síðar fékk Kristján Eldjárn 65,59 prósent atkvæða. Það met stendur óhaggað 48 árum síðar. Þar ber þó að hafa í huga að bæði Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson fengu betri kosningu þegar þau voru endurkjörin. Vigdís fékk 94,59 prósent 1988 og hefur enginn forseti hlotið svo góða kosningu. 2004 fékk Ólafur Ragnar Grímsson 85,60 prósent gildra atkvæða en þá skiluðu 20,56 prósent kjósenda auðu.
Uppfært: Bætt hefur verið við upplýsingum um atkvæðahlutfall Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar við endurkjör 1988 og 2004.