Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nýtt menningarhús á Patreksfirði

Nýtt menningarhús á Patreksfirði

15.10.2018 - 13:54

Höfundar

Með hvers kyns uppákomum í nýrri menningarmiðstöð á Patreksfirði er reynt að fá fólk inn bakdyramegin til að kynna sér list. Í húsinu er kaffihús, listasýningar og samkomustaður fyrir bæjarbúa. 

Húsið í gamalli verbúð

Menningarhúsið, Húsið, opnaði síðasta vor og Landinn hitti þau Aron og Julie þegar þau voru að undirbúa opnun þess í gamalli verbúð sem gegndi síðast hlutverki beitningarskúrs. Húsið er samkomuhús sem hýsir list, listamenn og hvers kyns viðburði, bargisk, tónleika, listabingó og fleira. „Með þessum viðburðum sem við höfum haft, eins og karíókí og bingó og pöbbkviss, það hefur verið svona leið til að fá fólk inn í þessa menningarmiðstöð, til að kynnast list sem við höfum fram að færa, erum með til sýnis og fara svona bakleiðina inn,“ segir Aron Ingi Guðmundsson, forsprakki Hússins. „Að reyna að eyða þessari ímynd að listaheimurinn sé þessi fíni, nær ógnvæni vettvangur. Það er svolítið í áttina sem við reyndum hér,“ segir Julie Gasiglia, forsprakki Hússins.

Húsið gegnir fjölþættu hlutverki

Í Húsinu er kaffihús, lítil verslun, sameiginlegt vinnurými og sýningarrými en nýjar listasýningar eru settar upp á fjögurra vikna fresti. „Við reynum ætíð til að fá listamanninn til að mæta; að hann haldi námskeið eða erindi. Allavega uppákomu svo að fólk geti spurt spurninga og kynnst listamanninum,“ segir Julie. 

Opið þegar aðrir samkomustaðir loka

Með því að starfa á vinnustofu Hússins geta þau Aron og Julie haft opið áfram í vetur, þegar flestir aðrir samkomustaðir í þorpinu verða lokaðir. Hægt er að sækja um að nýta vinnurýmið og Julie segir að aðstæðurnar, á Patreksfirði, geti reynst skapandi fólki spennandi áskorun. „Það er ekki alltaf hægt að hlaupa út í búð og kaupa það sem vantar heldur þarf að koma með nýjar og skapandi lausnir á vandamálunum. Svo það breytir hugsanahætti manns,“ segir Julie.

Tengdar fréttir

Vestfirðir

Gamla verbúðin fær nýtt hlutverk

Mannlíf

Frá London í kyrrðina á Patreksfirði