Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Nýtt LÍN-frumvarp veldur BHM miklum áhyggjum

01.06.2016 - 10:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
BHM, bandalag háskólamanna, gerir athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á námslánakerfinu, sem boðaðar eru í nýju frumvarpi menntamálaráðherra. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segir að breytt endurgreiðslufyrirkomulag valdi bandalaginu miklum áhyggjum. Samkvæmt því hækka vextir lána og tekjutenging afborgana verður afnumin.„Það gefur mjög lítið svigrúm fyrir stóra hópa sem lagt hafa á sig langt háskólanám.“

Þórunn segir í samtali við fréttastofu að BHM hafi farið yfir efni frumvarpsins. Þá hafi strax vaknað nokkrar spurningar, þar sem nánari skýringa sé þörf. 

„Um er að ræða grundvallarbreytingar á íslensku námslánakerfi sem þarf að skoða vel frá öllum sjónarhornum. Í fyrsta lagi viljum við fá að vita á hvaða menntastefnu þessar tillögur byggjast á? Ef það er þannig að þessar breytingar byggja ekki á menntastefnu til framtíðar þá sýnist okkur þurfa að móta hana fyrst og svo verkfæri til að framkvæma hana.“

Sérstaklega veldur breytt endurgreiðslu fyrirkomulag bandalaginu miklum áhyggjum. Samkvæmt þeim verði mjög lítið svigrúm fyrir stóra hópa sem hafa lagt á sig langt háskólanám.

„Eitt af því sem má spurja er hvernig stjórnvöld hyggjast manna illa launaðar kvennastéttir í samfélaginu ef þessar breytingar ganga í gegn? Það verður ekki eftirsóknarvert efnahagslega að starfa í þeim greinum. Áætlaðar vaxtabreytingar falla hér líka undir. Við höfum þungar áhyggjur af þeim og munum á næstu dögum senda ítarlegar athugasemdir og rökstuðning við þær.“

Góð ráðstöfun á skattfé?

Þórunn segir það í sjálfu sér góða hugmynd að styrkja nema til náms. Þó megi velta fyrir sér hvort styrkir, sem verði framkvæmdir þannig að ung manneskja sem býr í foreldrahúsum geti fengið í raun 65 þúsund króna vasapening, sé góð ráðstöfun á skattfé. Skoða þurfi vel hvort þeim pening sé betur varið annars staðar, til dæmis með því að gæta að jöfnunarhlutverki sjóðsins.

Að lokum gerir bandalagið athugasemd við það að doktorsnámið sé skilið eftir.

„hvers vegna? Hvert á það að leiða? Á hvaða menntastefnu byggir það? Það er afkannalegt að það sé innbyggt í tillögur 7 ár en ekki 8 sem er hin hefðbundna leið Bologna ferilsins. Það vantar allan rökstuðning fyrir þessari ákvörðun.“ Segir Þórunn.

Lítið sem ekkert samráð haft

Þórunn sagði að lítið sem ekkert samráð hafi verið við bandalagið við gerð frumvarpsins. Ferlið hafi verið hafið með fundi þar sem sagt hafi verið frá því að hefja ætti undirbúning að frumvarpinu. Svo fékk bandalagið að skrifa bréf til að koma sínum athugasemdum á framfæri. Þórunn segir það augljóst að samráð hafi verið haft við sum hagsmunasamtök og sum ekki.

Jóhann Gunnar Þórarinsson formaður SÍNE: samtaka íslenskra námsmanna erlendis sagði einnig í samtali við Morgunútvarpið að ekkert samráð hafi verið við samtökin við gerð frumvarpsins. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV