Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Nýtt fangelsi á Reyðarfirði?

31.01.2011 - 21:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Hægt væri að eyða öllum biðlistum eftir fangelsisplássi á nokkrum vikum með því að breyta hluta af vinnubúðum í Reyðarfirði. Hugmyndin var kynnt ráðuneytinu fyrir ári.

Í búðunum mætti hýsa 3-500 fanga þar sem lágmarksöryggis yrði gætt. Fangelsi landsins eru yfirfull, en yfir 300 dæmdir menn bíða þess að geta afplánað.  Þeir sem í venjulegu árferði yrði stungið inn fyrir að borga ekki sektir ganga líka lausir.

Á næstunni á að bjóða út byggingu nýs öryggisfangelsis sem hýsa á rúmlega 50 fanga. Áætlað er að það muni kosta upp undir tvo milljarða. Fyrir helgi sögðum við frá hugmyndum um að leysa bráðasta vandann með því að flytja að Litla Hrauni hluta af vinnubúðum sem áður hýstu þá sem reistu álverið í Reyðarfirði. Þannig mætti búa til pláss fyrir allt að 60 fanga. Fangelsismálastjóra hugnast hins vegar ekki þessi leið.

Önnur hugmynd hefur nú legið í um það bil ár á borði dómsmálaráðuneytisins, sem nú er hluti  innanríkisráðuneytisins. Hún er sú að girða einfaldlega utan um hluta vinnubúðanna þar sem þær standa á Reyðarfirði og útbúa  það sem kalla mætti lágmarks öryggisfangelsi. Afar litlu þyrfti að breyta og hið nýja fangelsi gæti verið tilbúið á nokkrum vikum.

Þeir sem yfir húsunum ráða segjast tilbúnir að leigja þau ríkinu í nokkur ár. Kostnaðurinn yrði ekki nema brota af því sem kostar að byggja nýtt og rammgert fangelsi. Þarna yrði að fullkomið eldhús, matsalur, líkamsrækt, vinnuaðstaða, sjúkrastofa, kennslustofa, skrifstofur, heimsóknaraðstaða og annað sem til þarf.

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð eru hlynnt því að fara þessa leið, ekki kannski síst vegna þess að tugir nýrra starfa gætu skapast. Málið liggur hins vegar á borði ráðuneytisins og hefur gert mánuðum saman án þess að nokkuð hafi verið ákveðið af eða á.