Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur samþykkt

26.11.2013 - 21:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í kvöld nýtt aðalskipulag borgarinnar til ársins 2030. 12 borgarfulltrúar greiddu atkvæði með skipulaginu og 3 á móti. Vinna við þetta skipulag hefur staðið frá árinu 2006 þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir var borgarstjóri.

Formaður stýrinefndar um aðalskipulag Reykjavíkur frá 2010 er Páll Hjaltason. Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs sagði í samtali við fréttastofu nú rétt fyrir fréttir að samþykktin markaði tímamót. Verið væri að þróa borgina innávið á umhverfisvænan hátt þar sem áhersla væri lögð á húsnæði fyrir alla og græna stefnu í samgöngumálum. 

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, greiddi atkvæði með nýju aðalskipulagi. Hún segir að aðalskipulagið ekki bara skipulag meirihlutans, heldur ekki síður Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, enda hafi fulltrúar allra flokka komið að endurskoðuninni og haft jákvæð áhrif á þróun skipulagsins.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir ekkert skipulagsmál í sögu þjóðarinnar hafa hlotið jafn mikla gagnrýni og mótmæli og nýja aðalskipulag Reykjavíkur. „Ótrúlega lítið hefur engu að síður verið tekið tillit til þeirra. Samkvæmt lögum á borgarstjórn að leggja mat á það í upphafi kjörtímabils hvort endurskoða eigi aðalskipulagið og ég á von á því að ákveðnir hlutar þess fari í endurskoðun.“