Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur

28.05.2013 - 20:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Flugvellinum í Vatnsmýrinni verður endanlega lokað árið 2030, samkvæmt nýju aðalskipulagi Reykjavíkur. Þúsundir íbúða verða byggðar innan núverandi þéttbýlismarka.

Í drögum að Aðalskipulagi Reykjavíkur til 2030 er ekki gert ráð fyrir nýjum úthverfum. Markmiðið er að þétta byggðina og eiga 90 prósent allra íbúða að rísa innan núverandi þéttbýlismarka. Skapa á heildstæðari borgarbyggð, nýta betur land og gatna- og veitukerfi. Einkum verður byggt á þremur svæðum í borginni, Vatnsmýri,  gamla hafnarsvæðinu í miðborginni og við Elliðaárvog. Þá verður byggð þétt á fjölmörgum öðrum reitum í borginni.

Langmesta uppbyggingin verður í Vatnsmýri. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir þéttri blandaðri 6.900 íbúða byggð þar sem um 14 þúsund manns muni búa. Þá er gert ráð fyrir að 12 þúsund störf verði á svæðinu. Rúmlega helmingur þessara íbúða rísi á skipulagstímanum.  Til að þetta geti orðið að veruleika þarf flugvöllurinn að víkja og er byggðin skipulögð í áfögnum eftir því sem hann víkur.

Norðaustur-suðvestur brautin verður lögð af á þessu ári og losnar þá land fyrir 1.300 íbúðir. Æfinga-,  kennslu- og einkaflugbraut verður lögð af 2015 og þá verður hægt að byggja 100 íbúðir. Norður-suðurbraut verður lögð af 2016 og losnar þá land fyrir 1.600 íbúðir. Frá 2024 losni síðan land fyrir 3.300 íbúðir og verði flugvallarstarfsemi aflögð með öllu 2030.

Við gömlu höfnina í miðborginni er einnig gert ráð fyrir blandaðri byggð, með 2.200 íbúðum þar sem um fimm þúsund manns muni búa. 

Þriðja lykilsvæðið í þróun borgarinnar er Elliðaárvogur. Þar er gert ráð fyrir að 7.400 manns búi í 3.200 íbúðum.
Haldið verður áfram með uppbyggingu bryggjuhverfisins hér fyrir aftan mig og mun iðnaðarhverfið hér víkja á áföngum.  Ráðist verður í talsverða landfyllingu í voginum þar sem um 900 manns munu búa.