Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nýta nafn Ólafs Jóhanns í svikamyllu

03.02.2018 - 20:18
Mynd með færslu
 Mynd: Björg Magnúsdóttir / RÚV - Björg Magnúsdóttir / RÚV
„Þarna er verið að nota nafnið mitt í einhverja svikamyllu og það dregið inn til að reyna blekkja fólk. Hvað mig varðar er þetta ekkert skemmtilegt en aðalmálið er að koma í veg fyrir að einhver bíti á agnið, að skúrkarnir nái að blekkja einhvern.“ Þetta segir Ólafur Jóhann Ólafsson, aðstoðarforstjóri Time Warner og rithöfundur, en nafn hans hefur verið notað í falsfréttum um hvernig sé hægt að græða umtalsverðar fjárhæðir á rafmyntinni Bitcoin.

Ólafur Jóhann er ekki fyrsti íslenski athafnamaðurinn sem lendir í svona Facebook-skúrkum.  Nöfn Björgólfs Thor BJörgólfsson og CNN voru einnig nýtt í falsfréttir þar sem reynt var að veiða fólk til að láta fé af hendi á síðu undir nafninu Bitcoin Code.

Ólafur Jóhann segir að honum hafi verið bent á þetta í síðustu viku þegar hann fór að fá skeyti frá vinum og kunningjum á Íslandi. Þetta hafi fyrst verið á íslensku en svo verið snarað yfir á ensku og sett í myndrænan búning.„Það hefur verið nostrað við þetta,“ segir Ólafur og bendir á að á myndinni hér að neðan, þar sem hann er í myndveri Kiljunnar en fréttaþulurinn í Los Angels, er tímamunurinn hafður réttur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Ólafur í myndveri Kiljunnar. Ónefnd fréttakona í myndveri í Los Angels. Tímamunurinn er engu að síður réttur.

Ólafur segist ekki hafa neinar skýringar á því af hverju nafn hans sé notað í svona svikamyllu. Hann hafi aldrei lent í neinu þessu líkt. „Ég er ekki einu sinni á Facebook sjálfur.“

Ættingi hans, sem þekki vel til tölvumála, hafi þóst sjá að þetta væri komið frá Rússlandi. Ólafur selur það þó ekki dýrara en hann keypti það. „En Rússar hafa verið duglegir að misnota þennan miðil því þar ráða menn ekki við neitt.“ Auglýsingar flæði óhindrað yfir miðilinn.

Ólafur hefur þegar sett sig í samband við Facebook og látið vita af þessu eftir formlegum leiðum en segir fyrirtækið seint að bregðast við. „Ef það gengur ekki eftir mun ég vekja athygli þeirra á þessu eftir öðrum leiðum. Maður sér það núna hvað það er í raun auðvelt að spila með Facebook og þetta er í raun bara lítið dæmi um hvernig Facebook er notað,“ en mikil umræða var um Facebook og aðra samfélagsmiðla  í tengslum við svokallaðar „falsfréttir“ eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

En hvað með Bitcoin? „Ég hef aldrei keypt Bitcoin og myndi aldrei gera það,“ svarar Ólafur.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV