Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýta dróna til að finna leka í lögnum

01.10.2019 - 07:30
Mynd: Rúv / Rúv
Íbúar á Oddeyri á Akureyri ráku margir upp stór augu í vikunni þegar stærðarinnar dróna var flogið yfir hverfið. Þar var á ferðinni starfsfólk Norðurorku að prófa nýja aðferð við eftirlit. Drónaflugið gerir það nú mögulegt að finna leka í lögnum með hitamyndavél og minnka vatnstjón.

Nýtt verkefni

Norðurorka á Akureyri fékk Íslenskar orkurannsóknir með sér í verkefnið en ákveðið var að byrja á afmörkuðu svæði á Oddeyri. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækið notar aðferð sem þessa við rannsóknir og eftirlit á Akureyri.

Starfsmenn Norðurorku voru ánægðir með tilraunina og gera ráð fyrir því að halda áfram að nota dróna til að kortleggja hitaveitukerfi bæjarins. 

Sparar tíma og peninga

„Með þessum getum við vonandi greint bilanir fyrr, áður en þær verða stórkostlegar og brugðist þá við þeim í tíma. Það sparar bæði tíma hjá okkar fólki og peninga,“ segir Hjalti Steinn Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Norðurorku.

„Þetta er bara partur af því að koma okkur inn í nútímann en eins og ég segi. Við vitum ekki alveg hvernig þetta kemur út en við bindum miklar vonir við það.“