Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Nýr þjóðarsáttmáli

07.11.2010 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Niðurstöður þjóðfundarins hafa verið teknar saman. Meðal þess sem þar er finna er að stjórnarskráin tryggi fullveldi og sjálfstæði Íslendinga, standi vörð um íslenska tungu, menningu og auðlindir þjóðarinnar. Þá á hún að stuðla að fjölmenningu og aðskilnaði ríkis og trúfélaga.

Fundurinn vill að valdhöfum verði settur skýr rammi þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins eru höfð að leiðarljósi. Allir njóti mannréttinda samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, tryggja skuli jafnræði fyrir lögum óháð kyni, trú, þjóðerni, kynþætti, búsetu og kynhneigð. Auk þess njóti allir jafns réttar til náms, heilbrigðisþjónustu og lágmarksframfærslu.


Náttúra og auðlindir landsins skuli vera óframseljanleg þjóðareign sem beri að vernda, umgangast og nýta á sjálfbæran hátt þannig að aðgengi almennings sé tryggt.


Þjóðfundurinn vill að vægi atkvæða verði jafnt, kosið verði með persónukjöri, þingmönnum fækkað og settar verði skýrar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ráðherrar sitji ekki jafnframt á þingi og takmarka ætti þann tíma sem alþingismenn mega sitja á Alþingi. Þá vill þjóðfundurinn að vald forsetans verði endurskoðað. Loks vill fundurinn að Ísland verði málsvari friðar og taki þátt í alþjóðasamstarfi í þeim tilgangi. Ísland verði herlaust og kjarnorkuvopnalaust.
Njörður P. Njarðvík situr í stjórnlaganefnd og er sáttur við niðurstöður þjóðfundarins. „Ég held að við höfum fengið heilbrigðan grundvöll fyrir nýjan þjóðarsáttmála. Ég lít svo á að þessi stjórnarskrá sem verður til á næsta ári, og er fyrsta íslenska stjórnarskráin, að hún verði að verða nýr þjóðarsáttmáli til framtíðar.“