Nýr stýrihópur gegn peningaþvætti

15.02.2018 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigríður Á Andersen, dómsmálaráðherra hefur skipað nýjan stýrihóp um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins. Rúm tvö ár eru síðan sambærilegur stýrihópur var stofnaður vegna tilmæla um úrbætur hér á landi frá Financial Action Task Force eða FATF, sem er alþjóðlegur vinnuhópur sem vinnur gegn því að fjármálakerfi séu misnotuð í því skyni að koma illa fengnu fé í umferð.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að þörf hafi verið talin á aðkomu fleiri aðila en í fyrra stýrihópnum sem var stofnaður. Í nýja stýrihópnum eru aðilar frá fleiri ráðuneytum ásamt rannsóknardeild lögreglunnar, Fjármálaeftirlitsins, Peningaþvættisskrifstofu Héraðssaksóknara, eftirlitsnefnd fasteignasala, endurskoðendaráð, Tollstjóra, Skattrannsóknarstjóra, Neytendastofu og greiningardeild ríkislögreglustjóra.

Með þessu á að tryggja yfirsýn yfir verkefnið og samstilla varnir gegn peningaþvætti og fjármögnunar hryðjuverka. Hlutverk stýrihópsins er að tryggja eftirfylgni og úrbætur vegna fyrrum athugasemda FATF. Þá á stýrihópurinn að vera til ráðgjafar í afstöðu til mála hjá FATF.

Ef ríki bregðast ekki við kröfum FATF geta aðildarríkin sammælst um að beita hvert annað þrýstingi. Þá geta ríki farið á lista yfir „ósamvinnuþýð“ ríki eða ríkjasvæði. Forseti FATF kom til landsins árið 2015 til að vekja athygli á að stjórnvöld ættu enn eftir að uppfylla alvarlegar athugasemdir frá vinnuhópnum sem gerðar voru fyrir rúmum áratug eða árið 2006.

Meginhlutverk stýrihópsins er samræmt eftirliti á grundvelli lagaákvæða, gera áhættumat og taka þátt í innleiðingu og breytingum á regluverki á vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og stuðla að fræðslu.

Hildur Dungal, lögfræðingur, er formaður stýrihópsins. Ásamt henni sitja fjórtán aðrir í stýrihópnum. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi