Nýr Pokémon leikur væntanlegur

Mynd: Source / Youtube

Nýr Pokémon leikur væntanlegur

05.06.2018 - 13:39
Það er nóg um að vera í tölvuleikjaheiminum eins og vanalega en tölvuleikjaráðstefnan E3 sem haldin er í Los Angeles er rétt handan við hornið og hefst í næstu viku.

Spennan er mikil og ýmsir framleiðendur eru nú þegar farnir að kynna nýja leiki, Geir Finnsson, tölvuleikjasérfræðingur Núllsins fór yfir það helsta, en hæst ber líklegast nýjan Pokémon leik.

Tölvuleikjarisinn Nintendo tilkynnti þetta í síðustu viku og margir aðdáendur hafa líklegast hoppað upp og niður í æsingi. Leikurinn er í raun endurgerð af fyrstu kynslóð Pokemon leikjanna en í þetta skipti er hann ekki spilaður í Gameboy handtölvu eins og eldri leikirnir heldur í Nintendo switch og verður í raun hálfgerð þrívíddarútgáfa.

Leikinn er hægt að spila saman í gegnum netið eða með tveimur fjarstýringum á sama skjá. Hann verður þar að auki tengdur Pokémon Go leiknum sem að flestir ættu að kannast við en hann tröllreið öllu fyrir nokkru síðan. Þannig getur þú fangað pokémona í símann þinn í gegnum appið og svo spilað í tölvunni með þeim köllum sem þú veiðir.  

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - YouTube

 

Geir segir leikinn bæði hugsaðan fyrir forfallna aðdáendur gömlu leikjanna en ætti þó líka að höfða til þeirra sem að aldrei hafa spilað þá áður.

Geir Finnson er fastur gestur í Núllinu á þriðjudögum þar sem að hann ræðir um allt sem tengist tölvuleikjum og tækni. Hægt er að hlusta á innslagið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.