Hönnun á sjúkrahóteli, sem yrði fyrsti áfangi nýs Landspítala, er í fullum gangi og gætu framkvæmdir við hann hafist í lok næsta árs. Framkvæmdir við önnur hús gætu mögulega hafist í lok kjörtímabilsins ef fjármagn fæst til þeirra í fjárlögum næsta árs, segir verkefnisstjóri um byggingu nýs Landspítala.
Framkvæmdir gætu hafist í lok kjörtímabilsins
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði um helgina að það væri raunhæft að hefja framkvæmdir við nýjan Landspítala á þessu kjörtímabili, og að stjórnvöld ætluðu að láta til skarar skríða. Kjörtímabilinu lýkur árið 2017. Þessari yfirlýsingu fagnaði forstjóri spítalans og sagði að í raun væri ekki annað í boði.
Gæti verið tilbúinn árið 2021
Stefán Veturliðason, verkefnisstjóri nýs Landspítala, segir að nú sé verið að hanna sjúkrahótel. Því á að ljúka í vor og framkvæmdir gætu þá hafist um mitt næsta ár. „Ef við ætlum að fara í meðferðarkjarnann þá á hönnun að hefjast á næsta ári, ef það koma peningar í það, og við reiknum með að framkvæmdir geti hafist árið 2017, og verkinu mundi þá ljúka árið 2021“ segir Stefán. Því þurfi að koma fjármunir í þann hluta á næsta ári.
Verkefnastjórnin lagði fram þessa verkáætlun fyrir nýjan Landspítala í vor. Þær áætlanir þarf þá að endurskoða ef fjármunirnir skila sér ekki á næsta ári. Við það myndu framkvæmdir tefjast sem því nemi.
Þess má geta að skipulagsvinna er ekki fyrirstaða fyrir framkvæmdum. Fjöldi athugasemda var gerður við skipulagið þegar það var auglýst, en það var svo samþykkt vorið 2013. Eftir það var hægt að kæra skipulagið, en enginn gerði það áður en kærufrestur rann út.