Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Nýr gagnagrunnur um E-efni

29.07.2012 - 20:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðrún A. Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri vefjarins nattura.is, segir að ofnæmisviðbrögð vegna aukaefna séu mjög algeng. Neytendur geta nú flett upp E-efnum sem tilgreind eru á matarumbúðum í nýjum íslenskum gagnagrunni.

Nattura.is er sjálfstætt starfandi vefur, þar sem leitast er við að veita neytendum upplýsingar um umhverfi og heilsu. Nýlega var gerður gagnagrunnur um aukaefni í mat. Þar er hægt að fletta upp svokölluðum E-efnum, og fá upplýsingar um innihald þeirra og hvort þau geti verið heilsuspillandi. Þau eru sett á skala frá grænu til rauðs, þar sem grænt táknar skaðlaus efni, en rautt táknar efni sem rannsóknir hafi sýnt að geti verið heilsuspillandi. 

 E-efnin talin sjálfsögð

Guðrún segir að ýmislegt sé að varast þegar aukaefnin eru annars vegar. „Ég keypti til dæmis íspinna handa syni mínum, fyrir nokkrum árum, og hann fékk þvílík heiftarleg ofnæmisviðbrögð að við þurftum að fara með hann á slysavarðsstofuna,“ segir hún. „Svona hlutir gerast oft og fólk talar ekki um þá. Það er eins og þetta sé bara sjálfsagt, að það sé verið að byrla okkur eitur, og við erum bara ekki sátt við það.“

Öfug sönnunarbyrði

Guðrún segir að matvælaframleiðendum beri ekki skylda til að sýna fram á að þau efni sem þeir noti séu skaðlaus. Í staðinn liggi sönnunarbyrðin hjá yfirvöldum og eftirlitsstofnunum ef hugsanlegt sé talið að tiltekið efni sé heilsuspillandi. Þessar stofnanir séu hinsvegar mjög veikar á Íslandi.

„Það virðist vera orðin venja að svona E-efna kokkteill sé í hverri einustu framleiðsluvöru. Það er ekki góð þróun, þannig að við verðum bara að vera á varðbergi sem neytendur,“ segir Guðrún A. Tryggvadóttir.