Nýr biskup þarf að byggja upp traust

22.01.2012 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Árni Þórðarson, sem hefur boðið sig fram til biskupsþjónustu, kveðst vilja beita sér fyrir breytingum innan þjóðkirkjunnar. Nýr biskup þurfi að byggja upp það traust sem hafi rofnað á síðustu árum.

Sigurður Árni hefur starfað sem prestur í Vestur-Skaftafellssýslu og Suður-Þingeyjarsýslu, og er nú prestur í Neskirkju. Hann sá þriðji sem vitað er að sækist eftir kjöri til biskups.

„Það er vegna þess að það er fjöldi fólks sem hefur hvatt mig til að bjóða mig fram. Ég hef verið málsvari þess að kirkjan taki til hendinni og hyggði að framtíðinni.“

Sigurður Árni segir að hann vilji beita sér fyrir breytingum og eflingu þjóðkirkjunnar. Létta þurfi af  biskupsembættinu hlutverki framkvæmdastjóra kirkjunnar.

„Ég vil gjarnan að það traust sem hefur rofnað á síðustu árum verði byggt upp að nýju. Ég tel mikilvægt að biskupsembættið sé vökult í samtali við deiglu samtíðarinnar, og biskupinn taki þátt í málþingum og fundum hingað og þangað í samfélaginu og beiti sér.“

Sigurður Árni telur mikilvægt að kirkjan beiti sér fyrir jafnrétti kynjanna og efli æskulýðsstarfið. Hinir frambjóðendurnir tveir eru Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti og Sigríður Guðmarsdóttir prestur í Guðríðarkirkju. Kosið verður í mars.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi