Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Nýju nautin vaxa á Stóra-Ármóti

15.02.2016 - 14:15
Mynd með færslu
 Mynd: Búnaðarsamband Suðurlands
Undirbúningur er hafinn að nýrri einangrunarstöð fyrir holdanaut í Stóra Ármóti í Flóahreppi í Árnessýslu. Stefnt er á að þangað verði fluttir frá Noregi fósturvísar af Aberdeen-Angus holdagripum í júní. Nýtt erfðaefni í holdanaut hefur ekki verið flutt til landsins í 20 ár.

Breytt lög um innflutning dýra voru samþykkt á Alþingi í fyrra. Heimilaður var innflutningur á sæði og fósturvísum holdanauta í einangrunarstöð. Þörf fyrir þetta var orðin mikil. Rætt er um að einangrunarstöðin verði samstarfsverkefni Bændasamtakanna, Landssambands Kúabænda og Búnaðarsambands Suðurlands, sem á jörðina Stóra Ármót í Flóahreppi. Þar er fyrir tilraunabú sambandsins og Rannsóknarstofnunar Landbúnaðarins. Gangi allt eftir verður byrjað verður að girða stöðina af í vor og stefnt að því að nýtt fjós verði risið fyrir veturinn. Rætt er um að fyrstu sláturgripir af nýju kyni geti verið væntanlegir tveimur og hálfu ári eftir að fósturvísar eru settir upp. Flytja má gripi úr einangrunarstöðinni við 9 mánaða aldur, sæði úr nautkálfum verður einnig dreift og síðarmeir einnig flutt inn.

„Fyllsta öryggis gætt“

Gætt er fyllsta öryggis við innflutning fósturvísa, segir Sveinn H Sigurmundsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands. „„Þeir koma djúpfrystir, það er hægt að skola þá áður en þeir fara úr landi og þeir þurfa að vera í sérstakri einangrun eftir að þeir eru teknir. Það er talað um að það verði fluttir inn fósturvísar með vorinu, trúlega verður það nú ekki fyrr en í júní og við erum byrjaðir að breyta gömlu fjósi í svona bráðabirgðaaðstöðu fyrir kýrnar sem taka á móti fósturvísum“. Einangrunarstöðin verður girt algerlega af og annað starfsfólk þar en á tilraunabúinu, svo samgangur verði enginn.

Bændur anna ekki eftirspurn

Íslenskir nautakjötsframleiðendur hafa hvergi nærri annað eftirspurn undanfarin tvö ár. Holdanautastofninn á Íslandi er orðinn gamall og innræktaður. Fyrstu holdanautin af Galloway kyni komu uppúr 1930, síðar var flutt inn sæði úr holdakynjunum Aberdeen Angus og Limousine, síðast fyrir 20 árum. Fyrstu sláturgripir af nýju kyni gætu verið væntanlegir tveimur og hálfu ári eftir að fósturvísar eru settir upp. „Úr fósturvísunum koma hreinir gripir og síðar meir þá er gert ráð fyrir því að þessir gripir verði sæddir, og þá með innfluttu sæði.

„Gott kyn til kjötframleiðslu“

"Þeir eru svartir þessir gripir og með góða vaxtargetu og eru mjög gott kjötframleiðslukyn. En verður nýja erfðaefnið til mikilla bóta? „Það vantar nýtt erfðaefni, þetta er orðið skylt og skyldleikaræktað og það er ekki vafi á því að það er mikil þörf á þessu og þetta er til mikilla bóta“. Sveinn segir að ræktunin áfram verði í raun tvískipt. Annars vegar muni vaxandi fjöldi holdanautaræktenda kaupa nautkálfa til ræktunar. Hins vegar verði tekið sæði og flutt á Hvanneyri. Því verði dreift þaðan til þeirra sem vilja, þannig verði líka hægt að stunda blendingsrækt til kjötframleiðslu, kjósi menn það.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV