Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nýjar upplýsingar um viðkomu svartfugla

29.06.2018 - 16:19
Ný tækni við rannsóknir á varpstöðvum bjargfugla hefur gerbreytt aðstöðu til að fylgjast með hve vel svartfugli gengur að koma upp ungum. Með svokallaðri „Time-Lapse"-tækni, eða hikmynd, eru hreiður fuglanna mynduð með reglulegu millibili allt sumarið, frá því fuglinn verpir þar til ungarnir yfirgefa hreiðrið.

Myndavélum með þessum búnaði var fyrst komið fyrir í Skoruvíkurbjargi á Langanesi fyrir fjórum árum. Í fyrravor voru fjórar vélar til viðbótar settar upp í Vestmannaeyjum, Látrabjargi, Hælavíkurbjargi og Grímsey. Vélarnar taka ljósmyndir á eins- til tveggja klukkutíma fresti yfir þétta svartfuglabyggð allan varptímann.

Gefur alveg nýja sýn á viðkomu svartfugla

Með þessu fást mun nákvæmari upplýsingar úr varpinu, og hvernig fuglunum vegnar, en þegar komið er í bjargið af og til yfir sumarið. „Já, þetta gefur í rauninni alveg nýja sýn á viðkomu svartfugla. Þetta hefur alveg vantað upp á í bjargfuglavöktun til þessa,“ segir Yann Kolbeinsson, náttúrufræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands. 

Tækni sem hefur verið þróuð á Grænlandi

Og hann segir erfiðara að fylgjast með varpi hjá svartfugli en sumum öðrum fuglategundum. Því sé þetta enn mikilvægara. Á myndunum sést vel hversu mörg egg klekjast út í hverju hreiðri, hjá stuttnefju og langvíu, hvernig ungarnir láta og að lokum hversu margir ungar komast upp. „Sem er bara alveg nýtt hérna á Íslandi,“ segir Yann. „Þessi tækni hefur verið þróuð á Grænlandi undanfarin ár og við erum að fylgja þeirri tækni.“

Upplýsingar sem ekki væri hægt að ná öðruvísi

Og undir þetta tekur Þorkell Lindberg Þórarinsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofunnar. „Þessi tækni gefur okkur kleift að fá upplýsingar sem við hefðum annars þurft að liggja mikið yfir og setja mikið afl í að reyna að ná. Við fáum mjög nákvæmar upplýsingar um það hvernig fuglunum vegnar yfir sumarið. Sem annars væri nánst ekki hægt að ná og ekki eins nákvæmum upplýsingum.“

Væri hægt að fjölga svona vélum

Og Þorkell telur að það verði hægt að gera þetta svona á fleiri stöðum. „Já, við sjáum það alveg fyrir okkur. Þetta hefur reynst mjög vel, við erum að fá mjög góðar upplýsingar úr vélunum. Þannig að við sjáum það fyrir okkur að það sé hægt að fjölga þeim víðar um landið og jafnvel fleiri myndavélar á þessa staði sem við erum á í dag líka.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV