Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nýjar umsóknir um hótel í hverri viku

03.09.2018 - 08:41
Teikning af hóteli á Landssímareit
 Mynd: Lindarvatn - landssimareitur.is
Hótel og gistirými mega ekki fara yfir 23% af heildarfermetrum í Kvosinni, á Laugaveg og á Hverfisgötu samkvæmt skilmálum Reykjavíkurborgar. Sú stefna borgarinnar að sporna gegn fækkun íbúa í miðborginni með því að leyfa frekar gisti og hótelstarfsemi í úthverfum en miðbænum, er gagnrýnd af verktökum og þrýsta þeir mjög á borgina að breyta um stefnu.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, var til viðtals í Morgunútvarpinu á Rás 2. Sagði hún að búið sé að setja mjög stífa skilmála í miðborginni. „Við erum með kvóta í Kvosinni, á Laugavegi og á Hverfisgötu. Þar mega hótel ekki fara upp fyrir 23% af heildarfermetrum. Síðan erum við líka með breytingu á aðalskipulagi um að það megi ekki breyta íbúðarhúsnæði eða skrifstofuhúsnæði í hótel,“ segir hún.

Nýjar umsóknir um hótel berast borginni í hverri viku að sögn Sigurborgar. „Umsóknirnar eru af mismunandi stærðargráðu en nýjar umsóknir koma í hverri viku. Þó svo að það sé búið að setja þessar kvaðir þá eru þrjú stór hótel í uppbyggingu í miðbænum. Það er Marriott hótelið hjá Hörpu, stórt hótel við Lækjargötuna og svo við Landsímareitinn,“ segir hún.

Almenningssamgöngur veigamiklar fyrir hóteluppbyggingu utan miðborgarinnar

Þá segir Sigurborg að þetta snúist að miklu leyti um að stýra framtíðarþróun borgarinnar næstu árin og að almenningssamgöngur spili þar inn í. „Þetta snýst meira um að stýra framtíðarþróuninni og að við séum ekki endalaust að bæta á sama svæðið. Þessir gististaðir geta hins vegar verið ákveðin innspýting og fært mannlíf og við viljum auðvitað styrkja það. Til dæmis eftir Suðurlandsbrautinni þar sem borgarlína er hugsuð. Svo getur þetta farið á fleiri staði sem eru svona hverfiskjarnar, eins og til dæmis Mjóddina sem getur leitt af sér meira mannlíf. Mjóddin er svæði sem er heitur staður í dag og mun þróast á næstunni með bættum almenningssamgöngum.“ segir hún.

„Aðalatriðið er að ná að flytja fólk á milli staða og við viljum ekkert endilega að allir ferðamennirnir séu á bíl. Langpraktískast og best er að hafa þetta í tengingu við góðar almenningssamgöngur,“ bætir hún við.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV