Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nýjar tegundir lána fyrir tekjulága

05.04.2019 - 11:49
Mynd með færslu
Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs á kynningunni. Mynd: RÚV
Starfshópur félagsmálaráðherra um lækkun þröskulds ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað kynnti tillögur sínar í morgun. Meðal þess sem hópurinn leggur til er að ríkið veiti svokölluð eiginfjárlán til tekjulágra. Ekki þarf að greiða af þeim fyrr en íbúð er seld á ný.

Verðtryggð lán til 40 ára verða bönnuð frá og með næstu áramótum og kynnti hópurinn ýmsar tillögur sem koma eiga í stað þeirra til að auðvelda tekjulágum og ungu fólki að fjárfesta í eigin húsnæði. 

Samkvæmt tillögum hópsins geta eiginfjárlánin numið 15 til 30 prósentum af kaupverði. Þau eru án afborgana og er ætlað að lækka bæði þröskuld útborgunar og greiðslugetu. Í skýrslu hópsins segir að þau geti til dæmis nýst fólki sem ekki ræður við greiðslubyrði svokallaðra startlána sem einnig voru kynnt í morgun. Lánin verða veitt til kaupa á hagkvæmu húsnæði og er hugmyndin að þau skapi aukinn hvata til þess konar bygginga. Lánið þarf ekki að greiða fyrr en íbúð er seld eða eftir 25 ár. Leyfilegt er að greiða lánið fyrr á matsverði eða í áföngum og verða hvatar til þess því að eftir fimm ár reiknast hóflegir vextir á lánið.

Ríkið veitir viðbótarlán með háum veðhlutföllum og hagstæðum vöxtum sem fólks sem á sérstaklega erfitt með að eignast húsnæði, samkvæmt tillögum hópsins, svokölluð startlán. Þau lán verða einnig háð því að verið sé að fjárfesta í hagkvæmu húsnæði í samræmi við þarfir kaupanda. 

Meðal annarra tillagna er að kerfi vaxtabóta verði breytt þannig að þær verði fyrst og fremst fyrir afmarkaða hópa sem eiga sérstaklega erfitt með að eignast íbúð. Þá er sú tillaga einnig lögð fram að fresta megi afborgun af námslánum fyrstu fimm árin eftir kaup á íbúð og/eða fá þegar greiddar afborganir endurlánaðar í tengslum við íbúðarkaup. Fyrir hvert ár yrði hægt að fresta eða fá endurlánað allt að 200.000 krónur, samtals allt að einni milljón króna á fimm árum.