Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nýjar kröfur í Katardeilunni

19.07.2017 - 11:02
epa04078799 An aerial view of high-rise buildings emerging through fog covering the skyline of Doha, as the sun rises over the city, in Doha, Qatar, 15 February 2014.  EPA/YOAN VALAT
Doha í Katar. Mynd: EPA
Sádi-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein og Egyptaland hafa lagt fram nýjar kröfur á hendur Katar í stað þeirra sem þau lögðu fram í síðasta mánuði. Ekki hafa borist nein svör frá stjórnvöldum í Doha. 

Ríkin fjögur og fleiri hættu öllum samskiptum við Katar í byrjun síðasta mánaðar og sökuðu stjórnvöld í Doha um að styðja og fjármagna hryðjuverkastarfsemi.

Í kröfum sem lagðar voru fram 22. júní ætluðust ríkin meðal annars til að sjónvarpsstöðin Al Jazeera yrði lögð niður, herstöð Tyrkja í Katar lokað, samskiptum slitið við Bræðralag múslima og að dregið yrði úr samskiptum við Íran.

Nýjar kröfur eru rýmri, en þar er farið fram á að stjórnvöld í Katar segi öfgum og hryðjuverkum stríð á hendur, hætti að fjármagna hryðjuverkahópa og veita þeim skjól, hætti að kynda undir ofbeldi og hatri og hætti afskiptum af innanríkismálum annars staðar.

Breska útvarpið BBC hafði eftir Abdullah al-Mouallimi, sendiherra Sádi-Arabíu hjá Sameinuðu þjóðunum, að gengið hefði verið frá hinum nýju kröfum á fundi utanríkisráðherra ríkjanna fjögurra 5. þessa mánaðar. Engar tilslakanir kæmu til greina, en deilendur gætu rætt um útfærslu þeirra. Ekki þyrfti endilega að loka Al Jazeera, en stöðva þyrfti allan hatursáróður.

Stjórnvöld í Katar hafa ítrekað hafnað ásökunum um stuðning við hryðjuverkastarfsemi og höfnuðu fyrri kröfum ríkjanna. Þau hafa enn ekki brugðist við hinum nýju.