Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nýjar íbúðir þriðjungi dýrari en gamlar

21.09.2018 - 09:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Söluverð nýrra íbúða í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins var 51 milljón króna að meðaltali að því er fram kemur í nýrri greiningu Íbúðalánasjóðs á markaði með nýjar íbúðir. Söluverð eldri íbúða var 46 milljónir á sama tíma. Á landinu öllu var 14% íbúðaviðskipta á almennum markaði vegna nýbygginga. Það var 3% 2010 og 18% 2007.

Hlutfall seldra nýbygginga var misjafnt eftir bæjarfélögum. Þannig var hlutfallið í Mosfellsbæ 56% og 45% í Garðabæ að því er fram kemur í greiningu Íbúðalánasjóðs. Hlutfallið í Reykjavík var 6%. 

Nýbyggðar íbúðir eru að jafnaði minni með færri herbergjum en aðrar á markaðnum segir í tilkynningu Íbúðalánasjóðs. Meðalstærð nýtta íbúða á Akureyri var 83 fermetrar og 89 fermetrar í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins. 

Nýjar íbúðir í Reykjavík voru 32% dýrari á hvern fermetra á öðrum ársfjórðungi en gamlar íbúðir. Fyrstu sjö mánuði ársins var söluverð íbúða 51 milljón króna að meðaltali en 46 milljónir á eldri íbúðum eins og áður sagði. 

Hagdeild Íbúðalánasjóðs telur margt benda til að sérstakur skortur sé á minni íbúðum á verði sem almenningur ræður við. Skemmri tíma taki að selja minni íbúðir í nýbyggingum og þær eru líklegri til að selja á eða yfir ásettu verði en stærri nýjar íbúðir. Þrátt fyrir þetta, segir hagdeildin, er ljóst að fáar af þeim nýbyggingum sem komið hafa á markaðinn undanfarið henta þeim sem lítið fé hafi til íbúðakaupa. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV