Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Nýjar húsnæðisbætur nýtast tekjuháum best

25.05.2015 - 18:24
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Nýtt húsnæðisbótakerfi myndi skila hlutfallslega meiru til heimila sem hafa miklar tekjur, samkvæmt umsögn fjármálaráðuneytisins. Breytingunum var hins vegar ætlað að auka stuðning við efnalitla.

Húsnæðisbætur í stað húsaleigubóta
Með frumvarpi Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra, sem ekki hefur verið afgreitt í ríkisstjórn, er lagt til að komið verði á fót breyttu bótakerfi fyrir leigjendur. Húsnæðisbætur kæmu í stað húsaleigubóta sem eru greiddar í núverandi kerfi. Yfirlýst markmið frumvarpsins er að stuðningur við efnalitla leigjendur verði aukinn. Einnig að stuðningurinn verði líkari því sem íbúðareigendur fá í gegnum vaxtabótakerfið.

Kostar ríkið tveimur milljörðum meira á ári
Í umsögn fjármálaráðuneytisins, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um liðlega tvo milljarða króna á ári frá því sem nú er, verði frumvarpið samþykkt óbreytt, og verði nálægt 6,6 milljörðum króna frá og með 2017, miðað við forsendur í útreikningum fjármálaráðuneytisins.

Ekki hafi verið gert sérstaklega ráð fyrir auknum útgjöldum í fjárlögum eða ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórarinnar fyrir árin 2016-2019. Afkoma ríkissjóðs gæti því að öðru óbreyttu orðið lakari, sem nemur þessum útgjöldum, ef ekki verður ráðist í mótvægisráðstafanir, eins og að draga úr útgjöldum annars staðar eða hækka skatta. Aftur á móti myndu sveitarfélögin losna við 700-800 milljóna króna útgjöld árlega, þar sem bótakerfið myndi samkvæmt frumvarpinu færast frá þeim til ríkisins.

Flóknara ferli fyrir suma bótaþega
Samkvæmt frumvarpinu myndu almennar húsaleigubætur færast frá sveitarfélögunum til ríkisins, en sérstakar húsaleigubætur, sem koma til viðbótar hinum almennu, yrðu enn hjá sveitarfélögunum. Í umsögninni segir að með því móti yrði framkvæmdin framvegis á tveimur stjórnsýslustigum, sem myndi auka rekstrarkostnað og flækja ferlið fyrir hluta þeirra sem fá bætur.

Útkoman þvert á markmiðið
Í umsögninni segir einnig að greining ráðuneytisins gefi það til kynna að hlutfallslega myndi niðurgreiðsla húsaleigu verða meiri eftir því sem tekjur heimila eru hærri. Ekki verði séð að það sé í samræmi við markmið frumvarpsins um að auka stuðning við efnalitla.

Ekki svo mikill munur á vaxtabótum og húsaleigubótum
Ennfremur segir í umsögninni að ekki verði séð að jafnmikill munur sé á stuðningi við leigjendur í húsaleigubótakerfinu, og við eigendur íbúðarhúsnæðis í vaxtabótakerfinu, og gengið er út frá í frumvarpinu. Í núverandi kerfi séu meðalhúsaleigubætur yfirleitt hærri en vaxtabætur hjá tekjulágum barnaheimilum. Sá munur muni aukast með nýju húsnæðisbótakerfi. Nýja kerfið muni hins vegar auka talsvert styrki til barnlausra leigjenda, sem í dag fái umtalsvert meira út úr vaxtabótakerfinu en húsaleigubótakerfinu.

Leiguverð myndi hækka, leigusölum í hag
Í lok umsagnarinnar segir að aukinn ríkisstuðningur við leigjendur við núverandi aðstæður á leigumarkaði muni að öllum líkindum leita til þess að leiguverð hækki, sem kynni að skila leigusölum meiri ávinningi en leigjendum, auk þess sem sveitarfélög kynnu að draga úr sínum sérstöku húsaleigubótum.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV