Nýjar ásakanir um ódæðisverk í Mjanmar

29.05.2019 - 08:35
epa07267381 A Myanmar solidier mans his station at the Goke Pi police outpost, in Buthidaung Township, northern Rakhine State, western Myanmar, 07 January 2019. The Arakan Army (AA) guerrilla group reportedly killed 13 security personnel in several attacks on police posts in Rakhine State on 04 January. Last December some 3,000 residents fled from village shelters into temporary camps in Ponnagyun, Buthidaung, Rathetaung and Kyauktaw townships as fighting raged between Myanmar military troops and AA militants in northern Rakhine State. The AA, which was founded in 2009, has not taken part in the National Ceasefire Agreement (NCA).  EPA-EFE/HEIN HTET
Hermenn í Rakhine í Mjanmar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Mannréttindasamtökin Amnesty International saka herinn í Mjanmar enn á ný um stríðsglæpi í Rakhine-héraði í vesturhluta landsins. Síðan hundruð þúsunda Rohingja flýðu frá Rakhine yfir til Bangladess hefur herinn átt í átökum við uppreisnarmenn úr röðum búddista í héraðinu.

Í ágúst 2017 hófust umfangsmiklar hernaðaraðgerðir gegn Rohingjum í Rakhine-héraði. Rohingjar eru múslimar sem lengi hafa búið í vesturhluta Mjanmar, en stjórnvöld líta á þá sem aðkomumenn. Um 740.000 hröktust yfir til Bangladess í aðgerðum hersins eða stór hluti Róhingja í Mjanmar.

Herinn var sakaður um margvísleg ódæðisverk gegn Rohingjum, en nú eru komnar fram nýjar ásakanir um pyntingar, mannshvörf og aftökur án dóms og laga.

Herinn hefur á undanförnum mánuðum sent mikinn liðsauka, þúsundir manna, og þungavopn til Rakhine til að brjóta á bak aftur uppreisnarmenn í Arakan-hernum, sveitum uppreisnarmanna úr röðum búddista. Uppreisnarmenn berjast fyrir aukinni sjálfstjórn í Rakhine.

Erfitt er fyrir utanaðkomandi að komast til Rakhine og ekki ljóst hve margir hafa fallið i átökum þar undanfarna mánuði, en samtökin Amnesty International segist hafa undir höndum sannanir um  stríðsglæpi og önnur ódæðisverk gegn almennum borgurum í héraðinu.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi