Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Nýir útreikningar gagnast HR

07.11.2012 - 22:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að nýir útreikningar við framlög til háskóla komi Háskólanum í Reykjavík til góða en þeir verði ljósir við aðra umræðu fjárlaga. Hann segir ekki rétt að HR fá minna en aðrir háskólar. Ari Kristinn Jónsson rektor er á allt öðru máli.

Háskólinn í Reykjavík fær tvo milljarða króna á fjárlögum og þar eru 3.200 nemendur. Rektor hans segir framlög ríkisins séu 500 milljónum lægri að raunvirði í fjárlagafrumvarpinu en 2009 en í ár stefnir í 100 milljóna króna tap á rekstri skólans.

„Það sem við sjáum er að það hefur verið gengið mikla lengra gagnvart Háskólanum í Reykjavík í þessum niðurskurði heldur en að öðrum stórum háskólum á Íslandi,“ segir Ari. „Og má nefna að á meðan að Háskólinn í Reykjavík er skorinn niður um 17 prósent er Háskólinn á Akureyri skorinn niður um 8 prósent og Háskóli Íslands um eitt prósent.“

Þetta er Ari ósáttur við. „Háskólinn í Reykjavík er sá skóli sem er helst að mennta fyrir þarfir atvinnulífsins, helst að mennta fyrir verðmætasköpun og helst að mennta fyrir þekkingarsamfélag, uppbyggingu þekkingariðnaðar og grænt hagkerfi. Hvers vegna það er gengið lengst í niðurskurði til þessa háskóla er í mínum huga gjörsamlega óskiljanlegt og ekki nema stjórnvalda að svara því.“

Menntamálaráðherra lítur málið öðrum augum. „Ef við skoðum fjárlög síðustu ára þá hafa allir háskólar mætt verulegum niðurskurði frá 21 prósenti í 23 prósent. En hins vegar er það svo að þeir háskólar sem hafa verið að taka við nýjum verkefnum, nýjum nemendum eða eins og Háskóli Íslands fékk aldarafmælissjóð í tilefni af 100 ára afmæli að sjálfsögðu er raunniðurskurður þar minni en þar koma líka á móti aukin verkefni.“

Nú er verið að endurskoða reiknilíkan háskóla og þá sérstaklega flokk tækni- og verkgreina, segir Katrín. „Að sjálfsögðu myndi sú aukning skila sér til Háskólans í Reykjavík sem hefur auðvitað sterka stöðu á því sviði.“ Hún segir að þetta skýrist fljótlega. „Það mun liggja fyrir núna við aðra umræðu fjárlaga.“