Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ný vísindarannsókn - Ísland að rísa

30.01.2015 - 06:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný rannsókn bandarískra vísindamanna sýnir að áhrif loftslagsbreytinga á Ísland eru meiri og mögulega alvarlegri en áður var talið. Rannsóknin leiðir í ljós að um ellefu milljarðar tonna af ís bráðna úr jöklum hér á landi á ári. Það veldur því að landið rís um 35 millimetra á hverju ári.

Rannsóknin sýnir að áhrif loftslagsbreytinga á Ísland eru meiri og mögulega alvarlegri en áður var talið. Sigrún Hreinsdóttir jarðeðlisfræðingur stýrði rannsókninni ásamt Richard Bennett og Kathleen Compton.

Compton sagði við viðtali á vef bandaríska tímaritsins Time í gær að þótt 35 millimetrar virðist ekki mikið þá gætu þeir haft alvarlegar afleiðingar á eldfjallaeyju eins og Íslandi. Kvika eigi greiðari leið að yfirborði því þegar jöklarnir bráðni og landið rísi minnki þrýstingur á bergið sem geri það mýkra og eldgos verði því tíðari. Vísindamenn spá því að landið rísi hraðar um miðja öldina, jafnvel um 40 millimetra. Verði það raunin spá vísindamenn því að eldgos, á borð við það sem varð í Eyjafjallajökli 2010, verði að jafnaði á sjö ára fresti.

Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu Geophysical Research Letters. Hún er byggð á gögnum frá 62 GPS-tækjum sem komið var fyrir á landinu og eru sum þeirra frá árinu 1995, önnur síðan 2006 og 2009. Eftir að vísindamennirnir höfðu rýnt í mælingar úr þessum tækjum kom í ljós að landið rís vegna bráðnunar jökla og þróunin sé mun hraðari en áður var talið og hafi líklega byrjað um 1980.