Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ný verkfallslota hefst á morgun

23.11.2014 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjöldi krabbameinssjúklinga bíður eftir því að komast í aðgerðir og biðlistar hafa lengst hratt vegna verkfalls lækna. Ný verkfallslota lækna í Læknafélagi Íslands hefst á morgun.

Helgi Kjartan Sigurðsson, formaður samninganefndar skurðlækna, segir að fjölmargir krabbameinssjúklingar bíði eftir aðgerðum og að biðlistar lengist hratt á meðan á verkfalli stendur. Ný verkfallslota lækna í Læknafélagi Íslands hefst á morgun. Samningaviðræðum vegna kjaradeilu skurðlækna við ríkið lauk á föstudaginn án niðurstöðu.

„Það var fyrirhugað að samninganefnd ríkisins legði þar fram tilboð sem þeir höfðu ekki og var ekkert lagt fram. Við höfum verið að bíða eftir tilboði frá þeim frá 4. nóvember. Þetta var enn einn árangurslaus fundurinn,“ segir Helgi Kjartan. „Það hefur ekki verið ákveðinn neinn framhaldsfundur. Samninganefnd ríkisins ætlar að óska eftir fundi hjá ríkissáttasemjara þegar þeir hafa eitthvað fram að færa en í bili er fundarhlé.“

Á fjórða hundrað aðgerðum hefur verið frestað á Landspítalanum frá því verkfallsaðgerðir lækna og skurðlækna hófust fyrir meir en þremur vikum. Næsta verkfall hjá félagi skurðlækna verður 9. til 11. desember. Ný tveggja vikna verkfallslota lækna í læknafélaginu hefst hins vegar á morgun. Þá leggja læknar á aðgerðar- og flæðissviði niður störf og einnig á þriðjudaginn. Á miðvikudag 26. nóvember og fimmtudaginn 27. nóvember leggja læknar á geðsviði og skurðlækningasviði niður störf. Þá hafa skurðlæknar ekki aðgengi að skurðstofunum og því falla allar aðgerðir niður þá daga. „Og það að missa úr tvær vikur á skurðstofum sem eru nýttar yfir 100 prósent, það þýðir gríðarleg vandræði. Við erum að jafnaði margar vikur að vinna okkur út úr jólum og hátíðunum, sjúklingar sem greinast á þeim tíma en ekki komast á skurðstofu. Nú þegar við erum komin nú með 3 vikur sem ekkert er og stefnir í 4 vikuna hjá okkur þá er þetta orðið grafalvarlegt vandamál,“ segir Helgi Kjartan. „Við erum nú þegar með fjölda krabbameinssjúklinga sem bíða eftir aðgerðum ofan á alla hina.“