Ný stjórnarskrá: „Erindi almennings lítið“

11.10.2018 - 10:53
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Almenningur hefur lítið fram að færa við gerð stjórnarskrár, að áliti Hauks Arnþórssonar, stjórnsýslufræðings. Hann hefur meiri trú á sérfræðingum í stjórnlagarétti og stjórnmálafræðum - og gamalreyndum stjórnmálamönnum. Enn lifi draumurinn um beint lýðræði en annmarkar á tæknilegri útfærslu hafi ekki verið leystir: Fulltrúalýðræðið sé enn skásta fyrirkomulagið. Haukur ræddi stjórnarskrármálið á Morgunvaktinni á Rás 1.

Stjórnvöld hafa sagt að vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar fari fram á þessu og næsta kjörtímabili. Það á að virkja almenning til þátttöku. „Það er vonargeisli í þessu ferli, “ sagði Katrín Oddsdóttir, lögmaður og fyrrverandi fulltrúi í Stjórnlagaráði, á Morgunvaktinni á dögunum. Hún vill að við ljúkum því verki að Íslendingar setji sér nútímalega stjórnarskrá og mikilvægt sé að tryggja aðkomu almennings. En hvernig?

Haukur Arnþórsson segir Stjórnarskrárfélagið eða aðrir slíkir hópar séu ekki endilega fulltrúar þjóðarinnar, heldur alveg eins þrystihópar sem vilji ná fram einhverju tilteknu. „Erindi almennings í stjórnarskrárgerðinni er voðalega lítið,” segir hann, og hugmyndin um að tryggja beina aðkomu í gegnum upplýsingatækni sé stórgölluð. Upplýsingatæknin hafi brugðist, bæti engu nýju við. „Hvað er almenningur?“ spyr Haukur og bendir á að það séu áhugamannahópar sem taki málstaðina yfir. „Það er bara þannig að þegar þú ert með einhvern hóp sem ekki hefur verið kosinn, er ekki með neitt umboð, þá ertu kominn með fólk sem þú veist ekkert hvort að er fulltrúar þjóðarinnar.“ 

Haukur Arnþórsson er doktor í stjórnsýslufræðum en starfaði lengi að tölvumálum, m.a. fyrir Alþingi. Eftir áratugareynslu af tölvum og upplýsingamiðlun segir hann ljóst að margt hafi farið úrskeiðis: „Það er eins og enginn megi segja það að upplýsingatæknin hefur raunverulega brugðist á mjög mörfum sviðum, m.a. eru rafrænar kosningar aldrei öruggar. Rafrænt lýðræði hefur ekki gengið upp.“ 

„Það er ekkert gaman að koma hér sem gamall tölvukarl og segja: Allt sem við sögðum fyrir 30 árum hefur brugðist.“ 

Hauki líst ekkert á þær leiðir sem forsætisráðuneytið er að skoða til að tryggja þátttöku almennings, reynslan af tilraunum hjá Reykjavíkurborg hafi ekki skilað raunverulegum vilja borgarbúa. Fólk hafi ekki lengur aðgang að sömu upplýsingum, eins og í gamla daga. Upplýst umræða sé eiginlega ekki lengur til á netinu eftir að hún færðist yfir á Facebook, sem stýri því hver sjái hvað:   

„Upplýst umræða á verulega undir högg að sækja. Lýðræðið á undir högg að sækja vegna þróunar upplýsingatækninnar. Það er bara svo alvarlegt.“ 

 

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi