Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

„Ný staða komin upp eftir afsögnina“

24.10.2011 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Ráðning Páls Magnússonar stendur formlega en auðvitað er komin upp ný staða með afsögn stjórnar Bankasýslu ríkisins segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Hann segir stóryrði sumra ekki hafa verið til bóta.

Steingrímur segir að sér þyki það miður að stjórn Bankasýslu ríkisins hafi beðist lausnar en hann virði þá ákvörðun. Hann stefnir að því að mynda nýja stjórn Bankasýslunnar sem fyrst svo starfsemi stofnunarinnar verði fyrir sem minnstri truflun. Aðspurður hvort ráðning Páls standi segir að formlega geri hún það en að ný staða sé komin upp eftir að stjórnin ákvað að biðjast lausnar.

Steingrímur segir að hann telji að stjórnin hefði gtað setið áfram. „Ég hafði ekki gefið neitt annað í skyn. Mér þykir miður að hún telji sig knúna til að grípa til þessa ráðs.“ Aðspurður hvort Bankasýsla ríkisins hefði misst trúverðugleika svaraði Steingrímur: „Það tel ég ekki vera, ekki sem stofnun og enginn í sjálfu sér. Þetta voru bara aðstæður sem komu upp sem menn þurftu að horfast í augu við. Þetta varð umdeilt og sumir létu um þetta falla stór orð sem mér fundust ekki til bóta.“