Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ný slökkvistöð í Mosfellsbæ

12.06.2013 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Gnarr borgarstjóri tók fyrstu skóflustunguna að nýrri slökkvistöð við Skarhólabraut 1 í Mosfellsbæ. Er talið að ný slökkvistöð muni stytta viðbragðstíma slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna og gera þeim kleift að veita betri grunnþjónustu.

Borgarstjórinn tók skóflustunguna ásamt fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem standa að Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS). Slökkviliðs- og sjúkrabílar voru á staðnum og var verkefnið kynnt í anddyri Lágafellslaugar að athöfn lokinni.

Samkvæmt því sem segir í tilkynningu hefur byggðaþróun undanfarinna ára stækkað þjónustusvæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) töluvert og gert það að verkum að útkallstíminn hefur ekki verið nægilega góður á tilteknum svæðum. Með byggingu nýrrar stöðvar í Mosfellsbæ styttist viðbragðstími slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem gerir sveitarfélögunum kleift að veita betri grunnþjónustu. Stöðin er því mjög vel staðsett með tilliti til útkalla.

Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður í kringum 2000 fermetrar að stærð með tvær hæðir og kjallara. Bæði er gert ráð fyrir slökkvi- og sjúkrabílum en byrjað verður á því að byggja þann hluta sem ætlaður er fyrir slökkvibílana á meðan ekki hefur verið skrifað undir samning við ríkið um sjúkraflutninga.

Bygging slökkvistöðvarinnar er sameiginlegt verkefni þeirra sveitarfélaga sem standa að SHS og hefur verið í undirbúningi í nokkur ár. Sveitarfélögin eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær. Stjórn SHS er skipuð framkvæmdastjórum þessara sveitarfélaga og borgarstjórinn í Reykjavík er formaður stjórnar.