Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ný samsteypustjórn mynduð á Grænlandi

27.10.2016 - 18:04
Mynd með færslu
Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar. Mynd: Johannes Jansson - norden.org
Ný þriggja flokka landsstjórn var mynduð á Grænlandi í dag undir forystu jafnaðarmannaflokksins Siumut. Kim Kielsen, leiðtogi Siumut, verður formaður nýju stjórnarinnar. Í henni verða einnig vinstriflokkurinn Inuit Ataqatigiit og miðflokkurinn Partii Naleraq.

Nýja samsteypustjórnin hefur öruggan meirihluta á grænlenska landsþinginu. Hún nýtur stuðnings 24 þingmanna af 31. Úr stjórn hverfa Demókratar og flokkurinn Atassut. Leiðtoga þeirra greindi á við Siumut-flokkinn um fjölda málefna, þar á meðal kostnað við nýtt þinghús og áform um að styrkja nokkur sveitarfélög í hinum dreifðu byggðum Grænlands.

Nýju stjórnarflokkarnir eru síður en svo samstíga í öllum málum, til dæmis hinum umdeildu áformum um úranvinslu í landinu. Í stjórnarsáttmálanum segir að flokkarnir hafi orðið ásáttir um að vera ósammála um það mál. Þar kemur einnig fram að helstu baráttumál stjórnarinnar verða sjálfstæði og aukinn jöfnuður í samfélaginu.

Siumut fær fimm ráðherra í nýju landsstjórninni, Inuit Ataqatigiit fær þrjá og Partii Naleraq einn. Kim Kielsen hefur verið formaður grænlensku landsstjórnarinnar frá árinu 2014. Hann tók við embættinu þegar Aleqa Hammond, þáverandi leiðtogi Siumut, varð frá að hverfa vegna fjármálamisferlis. Upp komst að hún hafði notað fé úr opinberum sjóðum til að greiða ferðakostnað sinn og fjölskyldunnar.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV