Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ný ríkisstjórn tekur við á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Formenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna undirrita nýjan stjórnarsáttmála í Listasafni Íslands í fyrramálið klukkan tíu. Flokksstofnanir flokkanna samþykktu nýjan stjórnarsáttmála á fundum í kvöld. Það var átakafundur hjá Vinstri grænum og nokkur andstaða við samstarfið en nær engin hjá Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.

Ný ríkisstjórn tekur við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á morgun. Stjórnarsáttmálinn verður kynntur eftir undirritun og síðan verða ráðherraefni kynnt. Lyklaskipti milli ráðuneyta verða síðan á föstudag. 

Bjarni Benediktsson verður fjármálaráðherra í nýrri ríkisstjórn. Hann segir að formenn flokkanna þriggja hafi leitast við að láta jafnræði ríkja milli flokkanna í stjórnarsáttmálanum. „En líka verið að horfa inn í framtíðina og senda út skilaboð um að við ætlum að halda áfram að byggja upp þetta samfélag og það verða góðir tímar framundan,“ sagði Bjarni fyrir fund flokksráðs Sjálfstæðisflokksins þar sem stjórnarsáttmálinn var samþykktur.

Mynd: Skjáskot / RÚV
Bjarni verður fjármálaráðherra í ríkisstjórninni sem mynduð verður á morgun og snýr þar með aftur í ráðuneytið sem hann fór með kjörtímabilið 2013 til 2016.

Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstri grænna, greindu frá því fyrr í kvöld að þau myndu ekki greiða atkvæði með nýjum málefnasamningi. Andrés Ingi sagði lítið nýtt í nýjum samningi flokkanna. Hann sagðist þó treysta sér til að vinna áfram í flokknum þó hann samþykki ekki samninginn.

Mynd: RUV / RUV
Þau Andrés Ingi og Rósa Björk segja að framhaldið verði rætt nánar á þingflokksfundi Vinstri grænna í fyrramálið.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist mjög ánægð með þann stuðning sem málefnasamningur flokkanna þriggja fékk í flokksráði Vinstri grænna í kvöld. Hún segir að þetta hafi verið átakafundur en niðurstaðan skýr. 75 studdu stjórnarsáttmálann, fimmtán höfnuðu honum en þrír skiluðu auðu. Katrín verður forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn.

Mynd: RUV / RUV
Katrín segir að andstaða Andrésar og Rósu hafi legið fyrir lengi. Hún veiki stöðu flokksins í nefndum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, var sáttur að fundi loknum þegar niðurstaða miðstjórnar flokksins lá fyrir. Nýr stjórnarsáttmáli var samþykktur einróma. Sigurður Ingi segir að þegar þrír flokka mynda stjórn þurfi að gera málamiðlanir. Framsóknarflokkurinn sé miðjuflokkur og því séu framsóknarmenn vanir að gera málamiðlanir.

Mynd: Skjáskot / RÚV
Sigurður Ingi segir að fundurinn hafi verið öflugur og gleðilegur.