Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ný ríkisstjórn tekin við

Mynd með færslu
 Mynd:
Ný ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Ríkisstjórnina skipa fjórir ráðherrar Framsóknarflokks og fimm ráðherrar Sjálfstæðisflokks, þrjár konur og sex karlar og meðalaldur er 45,2 ár.

Nýja stjórnin stillti sér upp venju samkvæmt til myndatöku á tröppum Bessastaða en síðan hélt nýr forsætisráðherra rakleiðis niður í Stjórnarráð þar sem Jóhanna Sigurðardóttir, fráfarandi forsætisráðherra afhenti honum lykla að stjórnarráðinu og Þingvallabústaðnum.

Jóhanna, sem nú segir skilið við stjórnmálin eftir 35 ár á Alþingi, færði Sigmundi Davíð bók að gjöf og henni fylgdu óskir um velfarnað í starfi.

Í kjölfarið tók Bjarni Benediktsson við lyklum að fjármálaráðuneytinu af Katrínu Júlíusdóttur og þessa stundina er Össur Skarphéðinsson að afhenda Gunnari Braga Sveinssyni lyklana að utanríkisráðuneytinu.