Ný plata og bílpróf

Mynd: Þorsteinn Sigurðsson / RÚV

Ný plata og bílpróf

25.05.2018 - 09:42
Ekki nóg með það að Aron Can hafi verið að gefa út sína þriðju plötu í dag þá er hann líka nýkominn með bílpróf, þrátt fyrir að hafa drepið tvisvar á bílnum. Þriðja platan hans Trúpíter kom út á miðnætti í nótt og hefur strax fengið mikil viðbrögð.

„Ný plata, nýtt bílpróf, lífið er gott,“ segir Aron feginn yfir því að þurfa ekki lengur að hringja í vini sína til þess að skutla honum á gigg. Það er ekki nóg með að hann sé kominn með bílpróf og sé búinn að gefa út plötu heldur er hann líka kominn í sumarfrí, en hann stundar nám í Borgarholtsskóla.

Aron segir það vissulega hafa komið fyrir að hann hafi verið í skólanum yfir daginn og svo farið og spilað fyrir bekkjar- og skólafélaga sína á balli um kvöldið. „Þetta er tvennt mjög ólíkt en mér finnst samt mjög næs að fá bara að vera með krökkunum í skólanum og vakna á morgnana klukkan átta,“ segir hann um muninn milli þess að vera einn vinsælasti tónlistarmaður landsins og að vera í skóla. 

 

Trúpíter er þriðja plata Arons en áður hefur hann gefið út plöturnar Þekkir stráginn og ÍNÓTT. „Það hefur orðið mikill þroski og þróun á okkar tónlist,“ segir Aron. „Maður er búinn að finna fyrir einhverri frægð og einhverju rugli og maður fær allt annað til að tala um,“ bætir hann við.

Platan er ekki concept-plata en Aron segir samt að hvert og eitt lag hafi sitt concept. Lögin séu ólík og það sé frekar létt yfir þeim en það séu hins vegar ekki miklar pælingar á bak við plötuna sjálfa í rauninni. „Við erum bara eitthvað að fara í stúdíóið að fokkast, ég heyri beat og byrja bara að raula yfir hann.“ Lagið Aldrei heim sem kom út fyrr á þessu ári er á plötunni en annars eru lögin öll óútgefin. 

Aron skrifaði undir dreifingarsamning hjá Sony fyrr á þessu ári sem felst í því að þeir dreifa tónlistinni hans á Norðurlöndunum. Þetta sé því ekki beint plötusamningur og hann má gefa út það sem hann vill.

Hann er nú þegar farinn að spila fyrir utan landsteinana og er til að mynda búinn að spila tvisvar sinnum í Noregi. Hann hefur þó ekki hugsað sér að skipta yfir í enskuna alveg strax heldur halda áfram að syngja á íslensku. „Fólk úti skilur lögin mín þó svo að það skilji ekki neitt og á meðan það er í gangi þá sé ég ekki ástæðu til þess að breyta því.“

Aron var gestur í Núllinu en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.