Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ný og gömul sjónarhorn á landið

Mynd:  / 

Ný og gömul sjónarhorn á landið

23.03.2019 - 10:20

Höfundar

„Fólk er alltaf að taka myndir af sömu stöðunum og frá sama sjónarhorninu,“ segir Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari sem fór í sérstakt ferðalag síðasta sumar til að finna ný sjónarhorn og uppgötva gömul sem fallið hafa í gleymskunnar dá. Guðmundur sýnir nýju myndirnar, ásamt gamalli klassík úr eigin ranni, á sýningu í Safnaðarheimili Neskirkju.

„Þeir erlendu ferðamenn sem hingað koma, og reyndar Íslendingar líka, fara alltaf og ævinlega á sömu staðina,“ segir Guðmundur Ingólfsson, einn reyndasti ljósmyndari landsins. „Þegar Sigfús Eymundsson fór í fyrstu ljósmyndaferðina um landið þá fór hann líka á svipaða staði, en hans samgöngur voru öðruvísi. Þannig að ýmislegt sem menn voru uppteknir af þegar þeir fóru um á hestbaki eða gangandi er núna horfið sem kennileiti. Það versta í dag er að fólk ljósmyndar aðallega þessa föstu punkta, aftur og aftur og aftur. Þannig að í fyrra sumar sagði ég við sjálfan mig: „Nú keyrir þú bara austur að Hornafirði og vestur á Snæfellsnes og sérð hvort þú sjáir ekki eitthvað nýtt til að ljósmynda.““

Mynd með færslu
 Mynd:
„Þeir fáu sem nú koma að Þyrli í Hvalfirði líta ekki upp,“ segir Guðmundur.

Við förum of hratt

Guðmundur bendir á að landslagið breytist og upplifun okkar af því líka. Fólk fari sér of hratt. Tilfærsla á vegarstæðum og skógrækt er meðal þess sem breyta upplifun okkar. „Við þurfum að víkka sjóndeildarhringinn eða ferðast aðeins hægar. Íslendingar byrja ekki almennt að ferðast um landið fyrr en með tilkomu bílsins og fljótlega varð Ferðafélags Íslands mjög öflugt. Ljósmyndun landsins, útgáfa ljósmyndabóka og starfsemi Ferðafélagsins tengdist nánum böndum.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Guðmundur Ingólfsson er meðal allra reyndustu ljósmyndara landsins.

Gamalt í bland

Nýju myndirnar tekur Guðmundur á filmu, en síðan eru negatífurnar skannaðar og myndin loks prentuð út með bleksprautuprentara. Þessi aðferð gefur „ekta ljósmyndabragð,“ segir Guðmundur. „Þetta eru mjög falleg prent sem eiga að vera ennþá ljósheldari en þau sem eru gerð með silfri á pappír. Ég nota alla tækni, gamla og nýja, í bland.“

Nýjum landslagsmyndum sínum blandar Guðmundur saman á sýningunni við eldri myndir sem eru ágætlega þekktar og hann hefur sýnt víða áður. „Það eru myndir sem ég byrjaði að safna þegar ég skreið fyrir tilviljun niður í tank við Djúpuvík á Ströndum 1993 og fór þá að leita uppi fleiri tanka og er eiginlega enn að leita þá uppi. Þetta eru ljósmyndir af kostulegu rými sem eingöngu gerir sig með því litla ljósi sem kemst inn. Mig vantar bara hvatningu til að fara og finna fleiri svona tanka. Það er ýmislegt ógert í þessu máli.“

Í viðtalinu hér fyrir ofan er rætt nánar við Guðmund Ingólfsson um ljósmyndir hans og sögulegar forsendur ljósmyndarinnar. Á sýninguna í safnaðarheimili Neskikrju eru allir velkomnir. Tónlistin í innslaginu er með norska tónlistarhópnum Barokksolistene af frábærri plötu sem heitir The Image of Melancholy. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Erum við öll að horfa eins á landið?