
Ný netafbrotadeild lögreglu
Daði segir að tilkynningar komi í meira mæli frá fyrirtækjum en einstaklingum þó að það síðarnefnda sé einnig algengt. Hann segir tölvupósta gríðarlega mikið notaða í blekkingar en þeir hafi einnig fengið upplýsingar um símhringingar. Þá sé erfitt að elta þessa glæpi þar sem þeir séu landamæralausir.
Daði segir lögregluna vilja fá tilkynningar frá fólki um góða vefveiðipósta, til dæmis þá sem tengjast íslenskum fyrirtækjum. Einnig netsvindlara sem herja á vinnutölvupóstföng sem jafnvel innihalda bankaupplýsingar eða aðrar mikilvægar upplýsingar. Lögreglan sé í samstarfi við Fjármálaeftirlitið í þessum málum og sendi þeim tilkynningar sem svo séu sendar áfram á fjármálafyrirtækin til aðvörunar. Fjármálafyrirtækin geti lokað fyrir reikninga þannig að ekki sé hægt að millifæra inn á reikninga netsvindlara.
Afbrot í gegnum net og síma aukist
5% landsmanna, 18 ára og eldri, urðu fyrir fjárhagslegu tjóni vegna brota í gegnum net- og síma árið 2017 samkvæmt niðurstöðum könnunar Embættis ríkislögreglustjóra um reynslu landsmanna af afbrotum á undangengnu ári og öryggistilfinningu íbúa árið 2018. Árið 2016 var hlutfallið 1,5%, hækkunin nemur 3,5% á milli ára. Flestir urðu fyrir fjárhagslegu tjóni vegna svika við verslun á netinu eða mistnotkun á kortanúmeri samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar.
Höfundur: Helena Rós Sturludóttir, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.