Ný Landskjörstjórn kosin á morgun

27.02.2011 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný Landskjörstjórn verður væntanlega kosin á þingfundi á morgun í stað þeirrar sem sagði af sér fyrir mánuði eftir að Hæstiréttur ógilti kosninguna til stjórnlagaþings. Fulltrúar stjórnarliða verða í meirihluta og líklegt að fulltrúi Samfylkingarinnar verði formaður.

Fimm manna Landskjörstjórn er kosin af Alþingi að afstöðnum kosningum. Þetta var síðast gert í ágúst 2009 og Ástráður Haraldsson síðan kosinn formaður hennar. Hún skal sjá um undirbúning og framkvæmd kosninga eins og lýst er í stjórnarskrá og lögum. Eftir að Hæstiréttur úrskurðaði kosningar til stjórnlagaþings ógildar sagði Landskjörstjórn af sér í lok janúar. Varamenn taka þá við en Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis lýsti því strax yfir að ný Landskjörstjórn yrði kosinn fljótlega. Það er á dagskrá þingfundar sem hefst klukkan þrjú á morgun. Líklegt er að stjórnarflokkarnir muni ráða þremur Landskjörstjórnarmönnum, Samfylkingin tveimur og Vinstri græn einum, og stjórnarandstaðan ráði tveimur, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fái að setja inn sinn manninn hvor flokkur. Gera má ráð fyrir því að annar fulltrúa Samfylkingarinnar verði síðan formaður. Gengið verður frá tilnefningum á þingflokksfundum á mrogun. Nýrrar Landskjörstjórnar bíða síðan ærin verkiefni, Icesave-þjóðaratkvæðagreiðsla, mögulega ný kosning til stjórnlagaþings, þótt líkurnar á því séu nú kannski minni en meiri, og síðan er aldrei að vita hvort kosið verður til Alþingis áður en kjörtímabilið er úti.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi