Ný ísbúð opnar á Drekasvæðinu

09.06.2014 - 22:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Til stendur að opna nýja ísbúð við Njálsgötu í Reykjavík, við hlið söluturnsins Drekans. Ísbúðin hefur þegar fengið nafn, og mun hún heita Paradís. Gárungar í nágrenni söluturnsins kalla svæðið í kringum hann jafnan „Drekasvæðið,“ og því verður innan skamms Paradís á Drekasvæðinu.

Rekstur ísbúðarinnar verður í höndum sömu aðila og reka söluturninn Drekann, sem er löngu orðin rótgróin stofnun við Njálsgötuna. Fréttastofa ræddi við Alexöndru Rut Sólbjartsdóttur, en hún verður framkvæmdastjóri Paradíss. 

„Við stefnum á að gera besta ís í heimi. Við ætlum að bjóða upp á heimagerðan ítalskan ís sem verður gerður frá grunni á hverjum degi.“ Alexandra ætti að kunna til verka, því hún er nýkomin heim úr sérhæfðu námi í ítalskri ísgerðarlist. „Ég fór út til Bologna á Ítalíu og lærði þar við Gelato University. Það var bæði skemmtilegt og gagnlegt.“ 

Mikil tilhlökkun er í Alexöndru en nú er undirbúningur opnunar Paradíss á lokametrunum. Segir hún að stefnt sé að því að opna búðina 19. júní, kvenréttindadaginn, eftir 10 daga. 

 

 

Alexandra smellti í þessa sjálfsmynd í háskólanámi sínu í Bologna.