Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ný hönnunarstefna - umsagnafrestur að renna út

11.09.2018 - 09:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Drög að nýrri hönnunarstefnu til næstu átta ára liggur nú fyrir. Frestur til að skila inn umsögnum um hana rennur út á morgun. Þetta er önnur stefnan sem stjórnvöld leggja fram um hönnun.

Hönnunarstefnan er ólík þeirri eldri að því er fram kemur í samráðsgátt stjórnvalda. Í henni er ekki mælt fyrir um einstakar aðgerðir eins og í þeirri eldri heldur er henni ætlað að vera grundvallarskjal um stefnumörkun. Mælt verður fyrir um einstakar aðgerðir í fjármálaáætlun hvers árs, segir þar. 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggur fram stefnuna en hönnun heyrir líka undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hönnunarmiðstöð var sett á laggirnar árið 2008 með samningi við bæði ráðuneytin. Á vef Hönnunarmiðstöðvar eru félagar hvattir til að senda inn umsagnir um nýju hönnunarstefnuna. Níu félög eiga aðild að Hönnunarmiðstöð; Arkitektafélag Íslands, Félag íslenskra landslagsarkitekta, Félag húsgagna- og innanhússarkitekta, Félag íslenskra teiknara, Fatahönnunarfélag Íslands, Félag vöru- og iðnhönnuða, Félag íslenskra gullsmiða, Leirlistafélag Íslands og Textílfélagið.