Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ný andlit á Söngvakeppninni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Kristinn Ingvarsson - RÚV

Ný andlit á Söngvakeppninni

09.02.2018 - 10:18

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson kynnir Söngvakeppnina í ár ásamt Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur, auk þess sem útvarpskonan Björg Magnúsdóttir hefur yfirumsjón með hinu svokallaða græna herbergi. Söngvakeppnin hefst á morgun og verður í beinni útsendingu á RÚV.

Jón Jónsson, sem hefur stýrt þáttunum Fjörskyldan á RÚV í vetur við góðan orðstír, segist spenntur fyrir nýja hlutverkinu. „Ég er virkilega spenntur fyrir þessu verkefni því það er ekki á hverjum degi sem manni býðst að standa við hlið sjónvarpskonunnar, Ragnhildar Steinunnar. Þetta verður því mikill skóli fyrir mig. Ég hef alltaf verið aðdáandi keppninnar og þá sérstaklega eftir þátttöku Frikka bróður,“ segir Jón.

Friðrik Dór Jónsson lenti í öðru sæti í keppninni árið 2015 þegar hann flutti lagið „Í síðasta skiptið“. Lagið hefur síðan þá skipað sér sess meðal þekktustu dægurlaga landsins og hefur Friðrik Dór flutt lagið af ýmsu tilefni. „Hans framlag í Söngvakeppninni markaði ákveðin tímamót á ferli hans og sannar að keppnin getur verið sannkallaður stökkpallur í allar áttir tónlistarbransans,“ segir Jón.

Hér má sjá Friðrik Dór flytja lagið á stórtónleikum Fiskidagsins mikla í fyrra.

Björg Magnúsdóttir, sem hefur haft yfirumsjón með viðtölum við keppendur Söngvakeppninnar á Rás 2, segir að það sé heiður að leggja keppninni lið. „Við á Rás 2 erum sólgin í allt sem við kemur tónlist og sérstaklega nýrri íslenskri tónlist. Við erum þess vegna mjög mikið Söngvakeppnisfólk. Síðustu daga og vikur höfum við spilað öll lögin á rásinni og kynnt keppendur fyrir hlustendum okkar. Mér finnst mikill heiður að fá að taka þátt í útsendingunni í ár og hef ekki misst af keppninni á mínum rúmlega þrjátíu árum. Að auki finnst mér geggjað að fá að vera í græna herberginu með öllu þessu hæfileikafólki sem tekur þátt. Eins og við öll vitum þá gerast aðalhlutirnir þar þannig að ég hvet fólk til þess að fylgjast með og missa ekki af einni mínútu á laugardaginn,“ segir Björg.

Söngvakeppnin hefst annað kvöld þegar fyrri undankeppnin fer fram. Í kvöld kl. 19.40 gefst landsmönnum hins vegar kostur á að hita sig upp fyrir tónlistarveisluna sem framundan er þegar þátturinn #12stig verður á dagskrá. Þar verður skyggnst inn í líf keppenda sem hafa síðustu daga staðið í ströngu við að undirbúa atriði sín fyrir stóra sviðið.