Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nuukbúar í farbanni næstu þrjár vikurnar

19.03.2020 - 02:15
Teikningar af fyrirhugaðri skólabyggingu í Nuuk á Grænlandi sem Ístak reisir
 Mynd: Kommuneqarfik Sermersooq - Bæjarstjórn Nuuk
Öll umferð frá Nuuk, höfuðstað Grænlands, verður bönnuð næstu þrjár vikur og nánast öll atvinnustarfsemi liggja niðri eftir að annað COVID-19 smit var staðfest þar í gær.

Fyrsta smitið á Grænlandi greindist í Nuuk á mánudag og í gær greindi Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, frá því, að annað smit hefði verið staðfest í bænum. Ekki væri hægt að útiloka að viðkomandi hefði smitast í Nuuk, og því hefði verið ákveðið að grípa til róttækra aðgerða, til að hindra frekari útbreiðslu COVID-19 á Grænlandi.

Algjört ferðabann, víðtækar lokanir og strangt samkomubann

Enginn fær að yfirgefa Nuuk næstu þrjár vikurnar og samkomur þar sem fleiri hittast en 10 eru bannaðar. Allir skólar og leikskólar verða lokaðir á meðan ferðabannið stendur en fólkí sem gegnir sérlega mikilvægum störfum í samfélaginu verður séð fyrir barnagæslu.

Verslunarmiðstöðin Nuuk Center verður lokuð og það gildir líka um íþrótthús, líkamsræktarstöðvar, bari, veitinga- og kaffihús. Veitingahúsum verður þó heimilt að selja mat úr húsi, hvort sem fólk sækir hann eða fær hann sendan.

Enginn faraldur en öryggið sett á oddinn

„Hér er enginn faraldur, en við grípum til þessara aðgerða til að fyrirbyggja, að faraldur brjótist út," segir Henrik L. Hansen, landlæknir, í samtali við grænlenska ríkisútvarpið. Vöruflutningar verða áfram heimilir og því engin ástæða til að örvænta eða hamstra, segir Kielsen, og matvöruverslanir verða líka opnar.

Ferðabannið er raunar ekki algjört. Það gildir um allar land- og flugsamgöngur, en Nuuk-búum verður leyfilegt að róa til fiskjar og selveiða, en þó því aðeins að menn snúi aftur til Nuuk. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV