Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nútímadýrlingur í þrotlausri þekkingarleit

Mynd: wikicommons / wikicommons

Nútímadýrlingur í þrotlausri þekkingarleit

01.07.2018 - 15:00

Höfundar

Óeigingjörn sýn franska heimspekingsins Simone Weil á réttlæti, og þrotlaus leit hennar að bættri samfélagsskipan sem þjónar fleirum án mismununar, gerir það að verkum að hún hefur hlotið stöðu eins konar nútímadýrlings. Lestin á Rás 1 fjallaði um fræðikonuna.

Albert Camus tók við Nóbelsverðlaunum í flokki bókmennta árið 1957. Á fjölmiðlafundi sem haldinn var fyrir athöfnina var hann spurður út í þá rithöfunda sem skiptu hann mestu máli, þá rithöfunda sem hefðu haft hvað mest áhrif á hann í gegnum tíðina. Hann nefndi nokkra alsírska vini sína, einhverja franska, en bætti svo við að lokum: „Og Simone Weil - því það er til dáið fólk sem stendur okkur nær en þeir sem lifandi eru“. 

Fann sér griðastað á heimili Weil 

Félagi Camus, rithöfundurinn Czesaw Milosz, sem hlaut einnig bókmenntaverðlaun Nóbels en þó nokkru síðar, skrifaði í grein  sinni The Importance of Simone Weil eða Mikilvægi Simone Weil að daginn sem Camus barst tilkynningin um hin virtu verðlaun hefði hann flúið blaðamenn og ljósmyndara og fundið sér griðastað á heimili fjölskyldu Simone Weil. Weil var þá látin, hún lést 17 árum fyrr, en Camus hafði vingast við móður hennar sem veitti honum athvarf frá fjölmiðlum þennan umrædda dag. Camus, 44 ára, grunaði líklega ekki að hann ætti aðeins eftir þrjú ár ólifuð, eða svo, og dæi langt fyrir aldur fram ekki ósvipað áhrifavaldi hans, Simone Weil, sem lést aðeins 34 ára að aldri. 

Þeir Camus og Milosz deildu skoðunum um harðstjórn, misrétti og umburðarleysi og því ekki að undra að þeir hafi einnig deilt ástríðu á Weil. Í áðurnefndri grein um mikilvægi hennar segir Milosz: „Með Simone Weil færði Frakkland nútímanum sjaldgæfa gjöf. Birting slíks rithöfundar á 20. öld virtist fjarstæðukennd á þeim tíma, stríddi gegn líkindum, og þó, ósennilegir hlutir eiga það til að gerast.“

Simone Weil var róttækur heimspekingur, dulspekingur, aðgerðarsinni og raunar ýmislegt fleira. Rauði þráðurinn í skrifum hennar er líklega jöfnuður, réttlæti og leitin að hugmyndafræði, félagslegu kerfi eða samfélagslegum strúktúr sem þjónar sem flestum og á sem sanngjarnastan máta. Weil fæddist inn í efnaða og menningarsinnaða fjölskyldu í París 3. febrúar 1909. Hún var gyðingur, foreldrar hennar ólu hana þó markvisst upp í trúleysi. Hún hlaut góða menntun,  hún lærði heimspeki við hinn virta skóla École Normale Supérieure. Sótti um inngöngu 1928, sama ár og nafna hennar og Simone de Beauvoir. Það fór þannig að Simone Weil fékk hæstu einkunn á inntökuprófinu og skipaði þannig fyrsta sætið,  De Beauvoir rétt á eftir með næsthæstu einkunnina. Lífshlaup Weil, kenningar hennar og sérviska áttu eftir að greina hana frá flestum samferðamönnum hennar, þar með talið Sartre og de Beauvoir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikicommons
Simone Weil

Seint hægt að bera brigður á gagnrýna hugsun Weil 

Erla Karlsdóttir, heimspekingur, guðfræðingur og kennari, segir um frönsku fræðikonuna: „Hún var gagnrýnin á allt sem hún vann með og það gerir hana svona spennandi.“ Weil dró flestallt í efa, setti spurningarmerki við rótgróna siði og reglur. Því verður seint hægt að bera brigður á gagnrýna hugsun fræðikonunnar. Simone Weil sætti sig ekki við að við tækjum grunnstoðum samfélagsins sem gefnum. Til viðbótar því sem Erla nefndi gagnrýndi Weil ennfremur fyrirbæri og hugmyndafræði á borð við lýðræði, flokkapólitík, þjóðerni, frið, stríð, trúarbrögð og svo má lengi telja. Í grein sinni, On The Abolition of All Political Parties, Um afnám allra stjórnmálaflokka, skrifar hún til dæmis: Stjórnmálaflokkum var að hluta til komið á fót meðal Evrópulanda til að sporna gegn alræði og að hluta til í samræmi við breskar hefðir. Tilvist stjórnmálaflokka ein og sér er ekki nægileg ástæða til að varðveita þá. Eina lögmæta ástæðan fyrir því að vernda nokkurn skapaðan hlut er gæska þeirra. Böl stjórnmálaflokka er einum of mikið, og því ætti verkefni okkar í dag að vera að spyrja: Er dyggð þeirra nógu mikil til að bæta upp fyrir mein þeirra og gera verndun þeirra æskilega?“

Um hamingjuna skrifaði hún einhvern tímann í minnisbækur sínar: „Við lifum í þeirri blekkingu að hamingjan sé skilyrðislaust hið mikilvægasta í lífinu“. Til frekari útskýringar tók hún dæmi og sagði: „Ef einhver segist vilja vera ríkur, þá spyr félagi hans: en hvers vegna viltu verða ríkur? Gera peningar þig hamingjusamari? Ef einhver segist hins vegar vilja verða hamingjusamur þá er ekki líklegt að sá hinn sami sé spurður frekar út í það. Ekki líklegt að spurt sé: en hvers vegna viltu verða hamingjusamur?“ Hún furðar sig á því að fólk óski sér hamingju án frekari ástæðna, fekari rökstuðnings.  

Eftirtektin grefur undan fordómum 

Eitt orð, eitt hugtak leggur Simone Weil sérstaka áherslu á í textum sínum, og vilja sumir meina að það skipti sköpum til að höfundarverk hennar verði skilið til fulls. Þetta er orðið attention, sem þýða mætti sem eftirtekt eða athygli, en það er þó ekki sú merking sem hún leggur í hugtakið. Í hennar huga merkir attention ákveðið ástand þar sem fólk stígur út úr viðteknu hlutverki sínu, stígur út úr þeim regluföstu hugrenningum sem fylgja hversdagslegu lífi, og út úr þeim fjölmörgu hlutverkum sem þeim fylgja; þar með talið hlutverk þess sem gaumgæfir, skoðandans, og þess sem gaumgæft er. Attention felur í sér að aðskilja viðteknar hugsanir án þess þó að glata þeim. Hún skrifar: „Líkt og maður sem stendur á fjallstindi. Er hann horfir fram á við, sér hann skóglendið og slétturnar sem fyrir neðan liggja án þess þó að horfa á þær. Það sem skiptir mestu máli“, skrifar hún síðan, „er að hugurinn sækist ekki eftir neinu heldur bíði eftir því að blákaldur sannleikurinn berist að. Skakkar þýðingar, ranglæti, fáránlegar villur í stærfræðiþrautum, klaufaleg stílbrögð og ófullkomnar tengingar á milli hugmynda – allt slíkt má rekja til þess að hugurinn grípur hugsunarlaust dauðahaldi í einhverja hugmynd og lokar þannig á sannleikann.“ Fyrir Weil fól hugtakið attention í sér leitina að sannleikanum. Hún gerði sér grein fyrir því að við byggjum öll yfir ómeðvitaðri hlutdrægni og ómeðvituðum viðmiðum, en attention var leið hennar til að yfirgefa eigin skynjun og þannig meðtaka heiminn á hreinni og sanngjarnari máta. Attention var þó í raun meira en valkostur, hún sá þetta sem ákveðna grundvallarskyldu. Umrædd eftirtekt gróf undan fordómum og gaf betri kost á að setja sig í spor annarra.  

Mynd með færslu
Simone Weil

Vann í verksmiðjum og barðist í spænsku borgarstyrjöldinni

„Hún gagnrýnir að þeir sem smíða kenningarnar geri sér enga grein fyrir því hvaða fólk þeir eru að smíða þær fyrir. Þeir halda að þeir séu að bæta kjör öreiganna til dæmis en hafa ekki hugmynd hvernig öreigarnir hafa það,“ segir Erla. Það dugði fræðikonunni ekki að lesa sér til um aðstæður annarra heldur vildi hún reyna þær á eigin skinni. Barátta verkalýðsfélaga átti hug hennar og hjarta, hún tók virkan þátt í kröfugöngum og lagði fram laun sín til verkfallsaðgerða. Hún þráði að skilja aðstæður verkafólks betur og réð sig því til erfiðisvinnu í verksmiðju. Sú vinna breytti sýn hennar á verkalýðsbaráttuna og útrýmdi þeirri von sem hún hafði haft um jákvæða útkomu byltingarinnar. Í bréfi sem hún skrifaði til vinkonu sinnar Albertine, sagði hún:

„Harkan í verksmiðjunum gerði það að verkum að skynbragð mitt á eigin sæmd, sjálfsvirðing mín, var gjörsamlega eyðilögð á tveimur til þremur vikum. Ekki halda að þetta hafi eggjað mig til uppreisnar, nei, þvert á móti: þetta framkallaði eitthvað sem ég hefði aldrei búist við af sjálfri mér: hlýðni. Uppgjafarhlýðni burðardýrsins. Mér leið eins og ég væri fædd til þess að taka við og framfylgja skipunum, eins og ég hefði aldrei gert neitt annað og myndi aldrei gera neitt annað. Ég er alls ekki stolt af þessari játningu, þetta er ákveðin þjáning sem verkamenn tala ekki um. Það er meira segja einum of sársaukafullt bara að hugsa um þetta. Í gegnum þrælkunina endurheimti ég síðar hægt og rólega sjálfsvirðingu mína á ný, en þó í annarri mynd en áður. Sjálfsvirðingin reiddi sig ekki á neitt utan sjálfrar mín og ávallt fylgdi sú hugsun að ég ætti ekki rétt á neinu, og að ef ég upplifði augnablik án niðurlægingar og þjáningar, þá væri slíkt ákveðin velvild eða jafnvel hrein lukka.“ 

Simone Weil skrifaði ennfremur um þessa reynslu í ritgerðinni La Condition ouvriére. Hún skrifar m.a. þar að reynslan hafi drepið æsku hennar og merkt hana að eilífu smánarbletti þrælsins. Hún missti trúna á að verkamenn gætu sjálfir barist fyrir réttindum sínum, og las greinar fræðimanna þess tíma með svartsýni þar sem hún taldi þær fjarstæðukenndar og ofmeta baráttu verkalýðsins verulega. Hún taldi hvorki nýja tækni né breytingar á fyrirkomulagi verkavinnunnar geta  dregið úr þjáningunni sem fylgdi því að vera meðhöndluð eins og dauður hlutur.

„Simone de Beauvoir hefur auðsjáanlega aldrei verið svöng“

Hún hafði stigið fæti inn í heim sem var afar ólíkur fræðaheiminum innan dyra Sorbonne, akademísku miðstéttarinnar, ólíkur heimi og veruleika valdamanna og stórlaxa í París sem litu jafnan niður á verkafólk og baráttufólkið innan verkalýðshreyfingarinnar. Hún hafði stigið fæti inn í veruleika sem ekki var hægt að skilja nema að reyna á eigin skinni. Og því ekki skrítið að hún hafi gagnrýnt heimspekilegar pælingar ýmissa samferðamanna sinna. Simone de Beauvoir lagði til að mynda til að megin verkefnið í lífinu væri ekki að fólk fyndi hamingju heldur að það kæmist að ástæðu tilvistar sinnar. Simone Weil svaraði hugmynd hennar þannig að það væri auðsjáanlegt að hún hefði aldrei verið svöng.  

Á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar skrifar Simone Weil um þá þróun sem hún fann fyrir í samfélaginu hvað hraða og vinnuhörku varðar. Henni fannst hraðinn meira í hávegum hafður en merking. Launin kominn í staðinn fyrir raunina, eða eins og orð hennar hafa verið þýdd: ,,salaries for realities''.  

Lifði lífi sínu fremur á borði en í orði 

„Ef ekkert okkar er tilbúið að deyja fyrir frelsið, þá munum við öll deyja undir harðstjórn''. Svo hljóðar tuttugasti kaflinn í bók Timonthy Snyders, Um harðstjórnina. Bók sem Lestin skoðaði fyrir ekki svo löngu, enda nýlega komin út í íslenskri þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar. Yfirskrift kaflans er: Verið eins hugrökk og þið getið. Kaflinn á einstaklega vel við Simone Weil sem lifði lífi sínu fremur á borði en í orði. Stuttu eftir reynsluna í verksmiðjunni skall spænska borgarastyrjöldin á. Simone Weil fór til Barselóna og gekk til liðs við hermenn anarkísku liðsfylkingarinnar Colonna Durutti. Ef hún ætlaði sér að skilja stríðið þá varð hún að vera hluti af því. Eftir nokkurra mánaða dvöl á Spáni slasaðist hún og sneri aftur til Frakklands. Allt hafði þetta þó áhrif á skrif Weil næstu árin, sem því miður urðu ekki mörg, því hún dó árið 1943, og eins og áður sagði, ekki nema 34 ára gömul.  

Varð ekki þekkt fyrr en eftir að hún lést 

Efni hennar var ekki gefið út á meðan hún lifði. Ein og ein grein birtist jú í tímariti, en það var þó ekki fyrr en eftir andlát hennar sem fólk fékk að kynnast skrifum hennar fyrir alvöru;  bækur, aragrúi af fræðigreinum, persónuleg bréf, minnisbækur og dagbækur. Einnig hafa verið gefin út glósublöð nemenda úr heimspekifyrirlestrum hennar. Það er því af nægu að taka. Við enduðum  umfjöllun okkar í Lestinni á hugleiðingum hennar um sjálfið, en í ritgerðinni „Human Personality“ skrifar hún: 

„Það er eitthvað heilagt innra með hverri mannveru, en það er ekki persónan sjálf“

Útrýming egósins  

Annað einkennandi stef í skrifum hennar er útrýming sjálfsins, og því kannski ekki skrýtið að hún hafi aðhyllst kennisetningar kaþólskrar trúar síðar meir í lífinu. Erla Karlsdóttir segir nánar frá trúarlegum skrifum Weil í viðtalinu sem heyra má í heild hér að ofan. En það að hugsa persónulega fól í sér synd hrokans. Simone Weil talaði fyrir því að menn þróuðu með sér hæfni til að stökkva sjálfinu á burt. Það er markvert að lesa tæplega hundrað ára gömul skrif hennar nú í dag, í okkar samtíma þar sem þúsundir sjálfsmynda eða sjálfa, birtast á Instagram á hverjum tíu sekúndum, milljón sjálfur daglega. Þar sem myndavélinni er beint inn á við í stað út á við, þar sem augunum er beint inn á við í stað út á við.  

Simone Weil átti erindi þá, og hún á erindi í dag. Óeigingjörn sýn á réttlæti og þrotlaus leit hennar að bættri samfélagsskipan sem þjónar fleirum, án mismununar, gerir það að verkum að hún hefur hlotið eins konar stöðu nútíma dýrlings. Skáldið T.S. Eliot er einnig meðal þeirra fjölmörgu sem haldið hafa upp á fræðikonuna, og eiga þátt í að halda heiðri hennar og minningu á lofti, en henni lýsti hann sem „eins konar snillingi í ætt við dýrlinga“.