Nú er ólöglegt að stela stemningunni

Mynd:  / Youtube

Nú er ólöglegt að stela stemningunni

31.03.2018 - 15:00

Höfundar

„Það er formlega ólögmætt að stela stemningu. Að fá augljósan innblástur frá öðru verki er núna orðið mjög hættulegt, sér í lagi ef nýja lagið þitt slær í gegn,“ segir Nína Richter í pistli þar sem hún fjallar um höfundarréttarlög í tónlistarheiminum með hliðsjón af nýlegu dómsmáli í Bandaríkjunum varðandi slagarann Blurred Lines.

Nína Richter skrifar:

Reykjavík

27. mars 2018

Ágæti viðtakandi,

ég vildi bara benda þér á að tilfinningin sem þú fékkst í partýinu síðustu helgi, búinn með þrjá þar sem þú stóðst úti á svölum og reyktir aðra sígarettu kvöldsins, létt bössaður að hugsa um hvort að þú hefðir kannski átt að læra eitthvað annað í háskóla, hvort að þú hafir valið rétta leið í lífinu, dálítið bjartur af áfenginu, líka dálítið dapur og kvíðinn enda búinn að vinna allt of mikið þessa viku – þessi tilfinning er í raun mín eign. Ég keypti höfundarréttinn að henni, hún er skráð á mig og þú þarft bókstaflega að borga mér ef þú ætlar að nota hana, segjum í skáldsögu. Þannig að þú talar við mitt fólk sem talar við þitt - og þú getur síðan millifært á reikninginn minn á næstu dögum. Ég vil líka gauka því að þér að smálánafyrirtæki fjölskyldu minnar er fullkomlega tilbúið til að lána þér nokkra brakandi slétta Jónasa Hallgrímssyni ef þú skyldir ekki eiga fyrir þessu í augnablikinu.

Og ef þig skyldi langa til að ganga í bol með nafni uppáhalds hljómsveitarinnar þinnar, The Who, passaðu þig á því að það sé rétt skrifað. HÚH er nefnilega frátekið með hú-i og há-i, eins og myndhöfundurinn Hugleikur Dagsson brenndi sig á fyrir nokkru. Alþjóða heilbrigðisstofnunin World Health Organization, skammstöfuð WHO gæti líka þurft að passa sig annars staðar en á prenti. Passa að framburðurinn sé réttur með svona ensku twangi og enginn fari að rugla þessu saman við hið al-íslenska HÚH sem skrifaði okkur á spjöld íþróttasögunnar. Þetta al-íslenska og hetjulega lundapysju-elskandi, rolluknúsandi víkinga-HÚH sem fær andstæðinga okkar á íþróttavellinum til að nötra. Þetta HÚH sem kveikir bál í brjóstum þjóðernissinna sem vilja meina að út af þróunarlíffræði séum við sterkari af því að við lifðum af í þessu voðalega vonda veðri, í þessum köldu torfkofum. HÚH. Núna má enginn nema einn maður taka HÚH og prenta það á bjórdósir og boli en með því er búið að tryggja heildræna og samhæfða framsetningu á þessu stórkostlega fyrirbæri sem er kristallast í einhverskonar íþróttamiðaðri þjóðerniskennd.

Mynd með færslu
 Mynd: Hugleikur Dagsson - Facebook
Hugleikur Dagsson á heiðurinn að þessari hönnun - en ekki einkaleyfið að „Hú!"

Nú, ef þig skyldi langa til þess að lesa upp úr eftirlætis bókinni þinni upphátt, segjum að þú sért týpan sem gerir svoleiðis, segjum að þú rífir fram Góða dátann í sunnudagslæri heima hjá foreldrum þínum og flytjir eins og eina blaðsíðu á meðan mamma þín snappar því á vinkonur sínar, sjáiði hvað hann er mikill menningarsjomli þessi litli brandarakall, orðinn svona stór, þá erum við í vandræðum. Mamma þín er orðin lögbrjótur og þjófur, af því að þýðingin er að sjálfsögðu höfundarréttarvarin af barnabörnum þeirra sem þýddu verkið á íslensku. Mamma þín á yfir höfði þér stefnu frá ónefndu bókaforlagi og peningurinn sem hún hefur lagt fyrir til að endurnýja pallinn og jafnvel setja upp heitan pott þarf því miður að fara í málskostnað af því að Snapchat er jú fjölmiðill.

En hún getur líka stefnt vinkonu sinni og krafist hárrar fjárhæðar í bætur, og átt þannig fyrir heita pottinum og pallinum, vegna þess að vinkonan tók skjáskot af snappinu þar sem þú varst að lesa upp úr bókinni og auðvitað er slíkt athæfi brot á höfundarrétti eiganda Snapchat reikningsins. Það má ekki taka skjáskot nema með leyfi eiganda.

Þú myndir ekki dánlóda bíl, fullyrti einhver niðurhals-forvarnarauglýsing á VHS spólum og DVD diskum fyrir um það bil fimmtán árum síðan. Jú, hugsaði ég. Ó jú, hvað ég myndi sko hala niður öllum bílaflota heimsins ef ég kæmist upp með það. Ég myndi dánlóda skipum og flugvélum. Er það ekki glæpur án fórnarlambs? Er í alvörunni einhver fátæk móðir sem fær ekki launin sín ef ég dánlóda bíl, í þessum framtíðarheimi sem verið er að teikna upp, þar sem við dánlódum bílum?

Mynd með færslu
 Mynd: Burak Kebapci - Pexels
Undirrituð myndi ekki hika við að hala niður bíl ef tækifærið gæfist

Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það að höfundarréttakrafan er engin falleg blómaskreytt regnhlíf til að verja listamenn undan oki markaðsaflanna sem reyna að ræna af þeim lifibrauðinu. Regnhlíf sem flestum okkar þykir eðlileg ráðstöfun og flest okkar samþykkja. Maður á að fá viðurkenningu og helst greiðslu fyrir það sem maður hefur búið til, jafnt handverk sem og hugverk. En þess heldur er höfundarréttur orðinn að einhverskonar verkfæri, haka í gullæði þar sem hægt er að detta í lukkupottinn ef gamalt frægt lag hljómar kannski pínulítið eins og eitthvað sem maður hefur samið. Þetta snýst að megninu til um lögfræðifimleika á bandaríska vísu og sá sem á sterkasta hanann vinnur hanaatið, svo að ég noti ógeðslega líkingu yfir, já frekar ógeðslegan hlut.

En afhverju finnst mér þetta svona ógeðslegt? Hvað er að því að lögfræðihákarlar fái að synda nokkra hringi í kringum listamenn á borð við Robin Thicke, sem hefur á sér orð fyrir að áreita konur, verandi maður sem syngur lög um gráu svæðin í kynferðislegum aðstæðum. Lag sem var lag sumarsins 2013. Lag sem þið hafið sennilega öll heyrt.

Jú, óháð því sem mér persónulega finnst um listamanninn Robin Thicke, Pharell, T.I., skilaboðin í textanum við lagið og framsetningu kvenna í myndbandinu við lagið, þá eru staðreyndir málsins á þá leið að Robin Thicke, Pharell og T.I. sömdu lagið Blurred lines undir innblæstri frá smellinum Got to Give it up sem Marvin Gaye heitinn gerði frægt árið 1977. Robin Thicke lét hafa það eftir sér ótal sinnum í viðtölum að þríeykið hafi beinlínis ætlað að semja lag með sama „fílíng“ og Got To Give It Up.

En þegar lagið Blurred Lines kom út og sló í gegn þá fóru börn og barnabörn Marvins Gayes aðeins að velta því fyrir sér hvort að það væri bara löglegt að stela stemmningu sisvona. Þetta var nú eiginlega sami fílingurinn, er það ekki? Ekki endilega sama lagið en nógu líkt til að minna á Got To Give it Up. Svo eru þeir að græða svo mikinn pening á þessu, bölvaðir.

Þannig að fjölskylda Gaye höfðaði mál gegn lagahöfundum Blurred Lines, og svo að ég týni ávextina neðst af trénu, þá urðu Robin Thicke og félagar að give it up. Og niðurstaða dómsins máði línurnar í lagaumhverfi listamanna hvað varðar höfundarrétt, innblástur og listrænt frelsi.

Það er formlega ólögmætt að stela stemmningu. Að fá augljósan innblástur frá öðru verki er núna orðið mjög hættulegt, sér í lagi ef nýja lagið þitt slær í gegn. Við munum aldrei fá aðra FutureSex/LoveSounds plötu af því að Justin Timberlake framtíðarinnar yrði rúinn inn að skinni af lögfræðingum dánarbús Michael Jacksons. Ævintýri á borð við Locked Out Of Heaven með Bruno Mars undir augljósum áhrifum frá The Police verður aldrei endurtekið. Týpa eins og Lady Gaga sem byggir útlit sitt og ytri persónu á ýktri útgáfu af drottningu poppsins, Madonnu, hún hefur verið sköpuð í síðasta sinn.

 

Og svo er spurning hvort að við þurfum ekki bara að finna upp nýja tónstiga vegna þess að ekkert í þessum efnum er nýtt undir sólinni. Sköpunin er bara fljótandi eter yfir höfðum okkar og stundum detta sömu regndroparnir á hausinn á tveimur manneskjum og sama lagið verður til á Indlandi og í Færeyjum. Og hvernig eiga nýjar tónlistarstefnur að verða til ef ekki má fylgja einkennum tónlistarstefnu lengur?

Með öðrum orðum, lagabókstafurinn getur ekki hegðað sér eins og einhver ömurlegur og afbrýðisamur fyrrverandi kærasti. „Þú mátt ekki vera með neinum öðrum en mér um aldur og ævi. Enginn getur elskað þig eins og ég elskaði þig.“ Þetta er næstum því farið að hljóma eins og texti með einhverri sveitaballahljómsveit frá tíunda áratugnum. Vinsamlegast ekki kæra mig.

Hlustendur góðir, þessi sirkus hefur ekkert með list að gera, nema þá kannski listina að búa til peninga. Hér eru óvinir sköpunarinnar á ferð. Óvinir tilfinninga- og listræns tjáningarfrelsis.

Nína Richter flutti pistilinn í Lestinni þann 27. mars 2018.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Óljósar línur lagasmíða

Popptónlist

Vinsælasta lag ársins 2013 reyndist stolið

Mannlíf

Blurred Lines endar fyrir dómi

Menningarefni

Umdeildu lagi Thicke oftast hlaðið niður