Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Nú er efanum eytt“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Dóttir fyrrverandi sakbornings í Guðmundar- og Geirfinnsmálum fagnar afsökunarbeiðni ríkisstjórnarinnar, en segir réttast að þeir sem brutu gegn föður hennar verði látnir sæta ábyrgð. Með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafi efanum um sakleysi föður hennar verið eytt.

Fimm af þeim mönnum sem hlutu dóm í Guðmundar- og Geirfinnsmálum árið 1980 voru sýknaðir í hæstarétti í gær. Þessi niðurstaða var rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Hvað viltu segja við þau sem hlutu dóm í Guðmundar- og Geirfinnsmálum 1980?

„Ég vil biðja þau öll afsökunar vegna þess ranglætis sem þau voru beitt á þessum tíma. Ríkisstjórnin vill tala með skýrum hætti í þessu máli þess vegna biðjum við þau öll, fyrrum sakborninga, aðstandendur þeirra og aðra þá sem hafa átt um sárt að binda vegna þessa máls afsökunar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

„Rosalega gott og gleðilegt að fá að heyra þetta og vita að það er einhugur í ríkisstjórninni út af þessu,“ segir Kristín Anna Tryggvadóttir, dóttir Tryggva Rúnars Leifssonar, fyrrum sakbornings. 

„Þetta er jákvætt skref þó það sé sjálfsagt í raun og veru. Það er ríkisvaldið sem ber ábyrgð á þessu dómsmáli og því sem var gert var og þarna er ríkisvaldið að biðjast afsökunar og bjóða fram sáttahönd,“ segir Oddgeir Einarsson, verjandi Sævars Ciesielskis.

„Nú hefur efanum verið eytt að fullu held ég um sakleysi þessara manna,“ segir Kristín Anna.

„Sömuleiðis ákváðum við að setja niður nefnd sem verður skipuð núna eftir helgi sem mun fara yfir framhald málsins með þessum aðilum,“ segir Katrín.

Er þá búið að ákveða að þetta fólk fái bætur?

„Það liggur auðvitað ekki fyrir ákvörðun. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að við förum yfir það núna hvað við getum gert til að bæta þennan skaða,“ segir Katrín.

Með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar í dag vonast forsætisráðherra til þess að sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum verði leystir undan því oki að þurfa hver og einn að höfða mál til að krefjast skaðabóta.

Þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og afsökunarbeiðni á hún við um alla sem voru dæmdir 1980, líka mál Erlu Bolladóttur?

„Núna hefður auðvitað ekki verið dæmt í því máli. Þannig að það bíður hugsanlega enn frekari málsmeðferðar,“ segir Katrín og bætir við að ríkisstjórnin biðji alla þá sem eigi um sárt að binda vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála afsökunar.

Kristín Anna segist vilja að það verði skoðað hvort þeir sem brutu gegn föður hennar verði látnir sæta ábyrgð.

„Auðvitað þætti okkur alveg ofboðslega vænt um það að það væri ekki skilið bara eftir þetta tómarúm,“ segir Kristín Anna.

Finnst þér koma til greina að stofna sannleiksnefnd eða láta einhvern sæta ábyrgð?

„Það hefur ekki verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar. En ég tel að dómur Hæstaréttar sé mjög skýr niðurstaða í málinu,“ segir Katrín.