Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Nú á ég bleika Crocs-skó“

Mynd með færslu
 Mynd: BS - Einkasafn

„Nú á ég bleika Crocs-skó“

05.11.2017 - 18:05

Höfundar

„Það sem breytti lífi mínu var þegar mér var sagt upp á lestarstöð í Berlín,“ segir Bergþóra Snæbjörnsdóttir skáld og helmingur gjörningatvíeykisins Wunderkind Collective. Hún sendi á dögunum frá sér sína aðra ljóðabók, Flórída, og fagnar útgáfunni í Mengi á þriðjudag.

Það er svo margt sem mig langar að gera í þessu lífi, áður en ég dey. Ég hef alltaf verið haldin einhverri svona innri vissu um að ég verði örugglega ekki gömul og fæ andteppu í hvert sinn sem ég sé nýjan marblett eða ókennilegt útbrot. Þegar ég sit í bíl og blikka augunum sé ég fyrir mér bílinn fara út af veginum. Ef ég labba niður stiga sé ég fyrir mér að ég detti og brjóti allar tennurnar í munninum. Svo ef ég á að nefna þrennt sem mig langar til að gera að þá langar mig til að öðlast kundalini uppljómun, verða andlegur nýhilisti og læra að sleppa takinu á þeirri tálsýn sem líf mitt er.

Besti tími lífs míns er núna. Einu sinni forðaðist ég rútínu og ró eins og heitan eldinn. Nú á ég bleika Crocs-skó og byrja hvern dag á því að búa til hafragraut sem dóttir mín borðar aldrei. Hún borðar hann aldrei en við búum hann samt til saman á hverjum morgni af því að það er hefð og við förum báðar úr jafnvægi ef rútínan fer úr jafnvægi.

Ég kem af löngum ættlegg neikvæðra kvenna og hef þurft að berjast við neikvæðnina í sjálfri mér um árabil. Svo get ég verið dálítið öfgakennd líka. Ef mér finnst eitthvað skemmtilegt vil ég bara gera það. Þegar ég var lítil vildi ég ekki gera neitt nema lesa bækur. Foreldrar mínir voru stöðugt að hamra á því við mig að ég yrði að fara út að leika mér líka og hreyfa mig til að hjartað í mér myndi stækka.

Sakbitnasta sælan í lífi mínu er sykur. Ég get aldrei átt sælgæti, ég borða það alltaf undir eins og ligg svo bara emjandi af magaverk uppi í sófa. Kærastinn minn reyndi á tímabili að kaupa bara meira magn, svo ég myndi ekki borða það allt frá honum. Ein jólin keypti hann stærstu Mackintosh dósina. Svo kom hann að dósinni tómri uppi í skáp. Nema rauðu molarnir voru allir eftir.

Mynd með færslu
 Mynd: BS - Einkasafn
Bergþóra Snæbjörnsdóttir skáld og gjörningalistamaður.

Það eru margir sem ég ætti að biðja afsökunar. Til dæmis Yvie vinkona mín sem ég eitraði fyrir á skemmtistað einu sinni. Allir sem voru með mér í grunnskóla. Ég var mjög reið þegar ég var unglingur, reið og óörugg með sjálfa mig. Óöryggi er algjört eitur - það gerir það að verkum að maður fer að breiða yfir hver maður er með grimmd.

Þegar ég var tvítug var ég að vinna öll sunnudagskvöld á mjög skítugum og sveittum bar. Ég vissi ekkert og var alltaf ein á vakt, giskaði á hvað bjórinn kostaði sirka og svona. Þarna kom fólk bara þegar það var að eiga mjög slæman sunnudag. Eftirminnilegustu gestirnir voru hópur af grænlenskum frystitogarasjómönnum sem komu inn á barinn, mökkdrukknir og grétu á meðan að þeir sýndu mér myndir af börnunum og konunum sem þeir áttu heima en hittu aldrei. Svo báðu þeir mig um að panta limmósínu fyrir þá á strippstað. Ég fann svo til með þeim að mér varð illt.

Mikilvægasti lærdómurinn sem ég hef dregið af lífinu til þessa er að það er stutt og að ekkert skiptir í raun máli. Bara að elska og gefa.

Það sem breytti lífi mínu var þegar mér var sagt upp á lestarstöð í Berlín. Ég fór í svo mikla ástarsorg að ég grét bara. Ég grét í lestinni, ég grét þegar ég borðaði, ég grét í vinnunni. Ég þurfti að koma heim til Íslands að sleikja sárin og þar tók á móti mér vinur minn - Bragi Páll. Í dag er hann maðurinn minn og við eigum dásamlega tveggja ára stelpu saman.

Síðustu textaskilaboð sem ég fékk voru frá hárgreiðslustofu að minna mig á tíma sem ég á hjá þeim. Ég held samt að ég ætli að afboða og fari bara á Rakarastofuna á Hlemm. Ég er allt of fátæk og nísk en fæ samt stundum hugmyndir um að ég þurfi bara að klippa mig eða setja einhverjar strípur í hárið og þá verði allt fullkomið.

Fjölskyldan mín og rútína gerir mig hamingjusama. Breytingar fara mjög illa í mig. Einu sinni fór ég að gráta af því að mamma fór með okkur á annan hamborgarastað en við vorum vön að fara á þegar við vorum í Reykjavík.

Útgáfuhóf ljóðabókarinnar Flórída er í Mengi á þriðjudaginn. Hér má sjá viðburðinn á Facebook.