Notum 3800 lítra á dag!

Mynd með færslu
 Mynd:

Notum 3800 lítra á dag!

26.03.2014 - 12:47
Íslendingum er líklega ekki tamt að hafa áhyggjur af vatnsbúskap heimsins, svo vel sem við erum sett að þessu leyti. Áhyggjur af versnandi grunnvatnsstöðu víða um heim er þó ekkert einkamál þeirra sem búa stöðum þar sem ástandið er slæmt. Þær snerta alla jarðarbúa meira eða minna.

Stefán Gíslason ræðir vatnsbúskap heimsins í Sjónmáli í dag. 

Sjónmál miðvikudagur 26. mars 2014 

---------------------------------------------------------------  

Dagur vatnsins 

Síðasta laugardag, það er að segja laugardaginn 22. mars, var dagur vatnsins haldinn hátíðlegur víða um heim. Kannski var ekki mikið um hátíðarhöld hérlendis af þessu tilefni, enda hafa Íslendingar eflaust meiri áhyggjur af mörgu öðru en vatnsskorti. Engu að síður er vatnsskortur sameiginlegt vandamál mannkyns, sem Íslendingar bera þegar vel er að gáð ábyrgð á, rétt eins og aðrar þjóðir. 

Í tilefni af degi vatnsins skrifaði Danielle Nierenberg áhugaverða grein í síðustu viku á heimasíðu hóps sem nefnir sig Food Tank, sem í hrárri íslenskri þýðingu útleggst sem Fæðutankur en ætti líklega fremur að kallast Fæðuveita. Food Tank er nefnilega svokölluð hugveita eða „think tank“ um matvæli, sem umrædd Danielle Nierenberg kom á fót og veitir forstöðu.

 Í grein sinni, sem ber yfirskriftina „More Crop Per Drop“ byrjar Danielle á að rifja upp hversu mjög vatnsnotkun í heiminum er tengd landbúnaði, en um það bil 70% af allri heimsins vatnsnotkun, hvort sem átt er við grunnvatn eða yfirborðsvatn, fer í að vökva landbúnaðarland. Með þessu móti er hægt að auka uppskeru og bæta afkomu, en á móti kemur að grunnvatnsbirgðir eru víða í þann veginn að ganga til þurrðar. Notkunin er sem sagt miklu meiri en endurnýjunin. Með því að beita bestu mögulegu aðferðum við vökvun er hins vegar hægt að draga mjög úr þessari ágengni á þá auðlind sem vatnið er. Þetta hafa menn t.d. gert með því að bæta nýtingu regnvatns, planta matjurtum í holur sem safna í sig yfirborðsvatni og beita vökvunartækni sem lætur vatnið drjúpa beint á rætur plantna í stað þess að dreifa því á allt yfirborðið.

 Samkvæmt upplýsingum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) gætu 47% jarðarbúa búið við alvarlega vatnsskort árið 2050 ef svo heldur fram sem horfir. Hvert okkar um sig notar um 3.800 lítra af vatni á dag, og þar af fara 92% í að framleiða matinn sem við borðum. Kannski kemur okkur þessi háa tala á óvart. Sæmilegt baðkar tekur til dæmis ekki nema eitthvað um 200 lítra og við þurfum jafnvel ekki nema 50 lítra til að komast í sturtu. Og þegar við sturtum niður úr klósettinu fara í allra mesta lagi 15 lítrar til spillis. Og þó að við teljum þvottavélina, uppþvottavélina, tannburstun og vatnsdrykkju með, fer því fjarri að við getum reiknað okkur upp í 3.800 lítra á dag. Venjuleg dagleg vatnsnotkun hvers okkar um sig er varla meira en tíundi hluti af því magni. Allt hitt er hin ósýnilega vatnsnotkun, þ.e.a.s. vatn sem er notað til að framleiða matinn sem við borðum – og að einhverju leyti aðrar vörur líka.

 Ég nefndi áðan að um það bil 70% af allri heimsins vatnsnotkun færi í að vökva landbúnaðarland. Þetta er þó mjög breytilegt eftir heimssvæðum. Þannig er hlutfallið 44% í löndum Evrópusambandsins en 80% í Bandaríkjunum. Í einstökum ríkjum vestanhafs er hlutfallið enn hærra, jafnvel rúm 90%. Þetta á m.a. við um Kaliforníu, en þar er vatnsskorturinn einmitt orðinn mjög alvarlegur. Í grein Danielle kemur fram að 95% af ríkinu búi við vatnsskort og að í fjórðungi ríkisins glími fólk og fyrirtæki við alvarlegan skort á þessari auðlind. Þetta er sérstaklega alvarlegt þegar haft er í huga að Kalifornía er matarbúr Bandaríkjamanna, en þaðan kemur nær helmingur af öllum ávöxtum, hnetum og grænmeti þjóðarinnar og yfirgnæfandi hluti matvöru á borð við möndlur, ætiþistla, vínber og ólífur. Þornun Kaliforníu getur því haft gríðarleg áhrif á fæðuframboðið vestra og þar með í öðrum heimshlutum.

 Af því sem hér hefur verið sagt er ljóst að mannkynið stefnir í ógöngur í vatnsmálum ef ekkert verður að gert. En sem betur fer er víða unnið að úrbótum. Bæði eru bændur víða um heim farnir að tileinka sér nýjar aðferðir til að fá meiri uppskeru fyrir hvern dropa, og eins geta neytendur auðveldlega látið til sín taka í þessum efnum.

 Sem dæmi um það sem bændur víða um heim hafa gert til að bæta nýtingu vatns má nefna verkefni sem FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) hefur staðið fyrir í Sýrlandi, þar sem hátt í 3.000 bændur hafa verið aðstoðaðir við að koma upp dropavökvunarkerfi, þar sem bæði vatni og áburði er beint að rótum plantna í stað þess að dreifa því á yfirborðið. Þessa tækni er hægt að nota bæði í smáum stíl og stórum. Annað dæmi mætti nefna frá Grænhöfðaeyjum, en þar hefur uppskera í garðrækt þrefaldast á átta árum, bæði vegna betri vökvunartækni og vegna þess að bændur hafa hætt að rækta mjög vatnsfrekar tegundir á borð við sykurreyr og farið þess í stað að rækta fjölbreyttar tegundir, svo sem pipar og tómata, sem þurfa minna vatn og henta betur í því loftslagi sem þarna er.

 Sýrland og Grænhöfðaeyjar eru fjarri Íslands ströndum, svona fljótt á litið. En hnötturinn er nógu smár til að hægt sé að flytja matvörur um hann þveran og endilangan. Þess vegna bera íslenskir neytendur sinn hluta ábyrgðarinnar á því hvernig vatn er nýtt í öðrum heimshlutum, hvort sem þeir heita Sýrland, Grænhöfðaeyjar, Kalifornía eða Evrópusambandið. Það er vissulega ágætt að spara íslenskt vatn með því að vera ekki lengi í sturtu, en það skiptir samt miklu meira máli að spara vatn í öðrum heimshlutum með því að kaupa skynsamlega í matinn. Liður í því er að kaupa sem mest af matvöru sem er framleidd innanlands eða í næsta nágrenni – og þá jafnvel í eigin garði, borða minna kjöt og henda ekki mat. Í hvert sinn sem matvara fer í ruslið erum við nefnilega að henda dýrmætu vatni, sérstaklega þegar í hlut á matvara sem er framleidd á svæðum þar sem vatnsskortur er vandamál eða matvara sem er búin til úr fóðri frá slíkum svæðum.

 Boðskapur dagsins er í stuttu máli þessi: Verum minnug þess að íslenska vatnið sem við notum heima hjá okkur á hverjum degi er kannski bara tíundi hluti þess vatns sem við notum í raun og veru – og kannski eini tíundi hlutinn sem nóg er til af. Við berum líka ábyrgð á hinum níu tíundu hlutunum!